mánudagur, 15. júní 2009

Kennarinn í sumarfríi ;)

Afsakið blogg-letina, hef einfaldlega ekki nennt að blogga lengi vel. Kannski það sé facebook að kenna, nú er maður í sambandi við alla þar.
Nú er maður kominn í sumarfrí og líkar það VEL!! Veðrið hér á Hornafirði hefur líka verið sérstaklega gott og alls ekki svo mikið rok, sem telst til frétta á þessum líka ágæta stað. Stelpurnar mínar fara í sumarfrí í júlí og því er ég í eins konar orlofi. Eins mikið og heitt ég elska mínar dætur, þá finnst mér svona frí samt mjög næs. Hef þó ekki setið aðgerðalaus, ónei, ekki eins og ég hangi yfir imbanum og leiki mér í tölvunni allan daginn. Hér er sko unnið hörðum höndum við það að fækka beðum í garðinum og reyta þau sem eftir eru, sem eru samt nokkuð mörg þrátt þrátt fyrir skerðinguna. Dagurinn hefst samt á skokki og sundi eða annað hvort, sem mér finnast mikil forréttindi og lúxuslíf. Síðan á að taka framhlið hússins aðeins í gegn, svalirnar orðnar ansi ljótar, en annars á að njóta lífsins í sumar á Fróni, enda ekki hægt að fara í frí út fyrir landsteinana þetta árið. Dagmar Lilju var boðið af ömmu sinni og afa að skreppa til Noregs í ágúst, svo hún verður sú eina í familíunni sem fer í dýragarð og á ströndina þetta árið. Það verður mikið stuð, því þar búa auðvitað Saga og Baltasar, frændsystkin hennar.

Annars verður eitt og annað um að vera í sumar, s.s. eitt stk. ættarmót og útilegur, og síðan er komið að hinni laaaaangþráðu útskrift minni úr HÍ-Menntavísindasviði (Kennó:) núna á laugardaginn. Sökum fjarveru frá börnum um síðastliðna helgi þar sem við hjónin skruppum með saumaklúbbnum og mökum í frábæra fjallgöngu, grill, djamm og gistingu, þá ætlum við að fagna þessum áfanga hér heima í faðmi fjölskyldunnar og grilla eitthvað gómsætt!

Þangað til næst, sem ég þori nú ekki alveg að fara með hvenær verður nákvæmlega... góðar sólar- og grillstundir!!!
Íris....endelig en lærer om 5 dage;)

miðvikudagur, 4. mars 2009

Hvannadalshnjúkur....eða ekki?!

Líkurnar á því að ég gangi á hnjúkinn minnka með hverjum deginum sem líður. Ég sem var orðin frekar spennt fyrir þessum merka áfanga, sem er frekar ótrúlegt þar sem ég er ekki mikið fyrir svona labb. Það er nefnilega alltaf þannig að þegar það er janúar og febrúar þá finnst manni alltaf svo langt þangað til að e-ð gerist og fer að plana hitt og þetta. En svo líður tíminn alltaf eins og raketta og gangan eftir tæpa 2 mánuði og líka skil á lokaverkefninu. Ef ég á að meika það upp þessa 2000 rúml. metra þá verð ég líka að taka góðar æfingar annað veifið upp um fjöll og firnindi. Staðreyndin er hins vegar sú að lokaverkefnið mun taka allar þær stundir sem eiga að heita "frí", þannig að ég ákvað að vera raunsæ og fresta þessu um óákveðinn tíma. Ég veit að það verður lítið mál að fá hann Óskar minn með mér einhvern tímann seinna. En ég viðurkenni það að ég mun verða frekar spæld þann 25. apríl þegar allur hópurinn fer upp......nema ég....:( Hlynur fer bara í staðin fyrir mig og tekur flottar myndir til að sýna mér...jájá

Ég sleppi samt ekki blakinu, sem mér finnst mjög skemmtilegt og góður félagsskapur. Þegar mæting er hvað best erum við í kringum 20 kellur, sem er nú helv... gott. Ég lét meira að segja plata mig austur á Neskaupsstað um helgina á e-ð blakmót....dísös kræst! En hei... þetta er í alvöru spurning um að vera með :):) Er í B liðinu svo það sé alveg á hreinu! Go Íris go Íris !!! Takk fyrir það :)

Annars er bara allt í gúddí fíling hérna á bæ fyrir utan smá veikindi hjá þeirri yngstu á bænum, en það er nú bara þannig þegar maður á börn. Hún er frekar mikil mömmustelpa og t.d. þegar Óskar kom heim eftir vinnu seinnipartinn þá var hún ekki á því að far að kubba með pabba sínum á meðan mamma hrærði í grautnum, alveg brjáluð. Síðan datt mér eitt í hug sem skiptir hana afar miklu máli þessa dagana, en það er að "stjórna". Ég sagði að hún mætti stjórna á meðan þau kubbuðu og þá bara "já"!! Þetta er s.s. the secret word þessa dagana...

Over and out!
Íris í keppnisskapi

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Ekki beint tíðindalítill dagur..

Það er ótrúlegt hvað lítið er að frétta svona almennt. Síðan koma tímabil þar sem allt er að gerast og þannig hefur vikan verið, og það er nú bara miðvikudagur. Á mánudaginn eignuðust Halla Katrín frænka og Gunnar frumburðinn, yndislegan dreng og óska ég þeim innilega til hamingju með það, þó að ég efi nú að þau hafi tíma til að líta af drengnum til þess að lesa þetta blessaða blogg mitt.
Síðan frétti ég í dag að vinir okkar Óskars hafi eignast stúlku nr. 2 (hjá þeim) nr. 3 (hjá honum) nema hvað að greyið pabbinn var í Köben og missti af fæðingu dóttur sinnar. Hún átti ekki að fæðast fyrr en eftir um 10-14 daga, en svona er náttúran. Frétti að hann hafi fengið sér einn öl á krá til að róa taugarnar og að mikil gleði hafi breiðst út meðal gesta þegar barþjónninn náði að veiða upp úr föðurnum hvernig staðan var. Gaman að því þó að hann hafi eflaust viljað vera í faðmi fjölskyldunnar. Til hamingju elsku Daði, Herborg, Rebekka og Mía.
Mamma hringdi í dag og sagði mér síðan fréttir sem ég átti langt frá því von á, en hún Anna Marín frænka mín er gift!!!!!! Ekkert að því auðvitað, nema bara að hvorki ég né aðrir í familíunni hafa séð eða hitt eiginmann hennar og hún hefur ekki hitt tengdó. Smabandið hefur staðið stutt yfir en þau hafa þekkst nokkuð lengi. Hahahaha...svona er ástin og ég samgleðst henni innilega. Anna Marín er yndisleg manneskja og á skilið allt það besta. Knús Anna mín!!
Held ég fái mér bara einn öl og melti fréttir þessara þriggja daga. Börn og ástin..hvað er mikilvægara!!! Ekkert...
Over and out!

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Harkan...svitni svitni

Já árið byrjar með látum. Ákvað að hætta þessu drolli og drífa mig í blakið.....aftur....þar sem ég þarf svo voðalega lítið að læra núna. Veit samt ekki alveg hvort ég mun segja það sama þegar líður að skilum lokaverkefnis...en er á meðan er! Ætla meira að segja að fjárfesta í hnéhlífum svo ég geti fórnað mér fyrir liðsmenn mína fyrir alvöru :) Svo dreif ég mig í að kaupa eitt stk. kort í ræktina...takk fyrir og góðan daginn...og er bara búin að vera nokkuð öflug þó ég segi sjálf frá. Það er nefnilega þannig að stefnan er sett á Hvannadalshnjúk á sjálfan kosningadaginn 25. apríl. Ég hugsaði með mér að annað hvort sleppti ég þessu bara eða tæki ákvörðun um að fara og láta slag standa og koma mér í þokkalegt form, því það er ekki séns á að ég verði í afturdragi 15 samferðamanna..."bíðið eftir mér!!" No way!
Það er svo merkilegt að þrátt fyrir að rúm 2 ár séu liðin frá fæðingu Elínar Óskar þá er þetta bölvaða "spik" ennþá til staðar. Reyndar var ég mjög dugleg hvað mataræði varðar á þeirri meðgöngu en tók Dagmarar með trompi svo ekki sé meira sagt. Þá vantaði mann reynsluna og hélt bara að nú gæti maður sko bara étið kleinur og kex eins og mann lysti, því maður myndi hvort sem er blása út. Ekki grunaði mig að ég myndi enda svo með þessi kíló sem áttu að vera barnið og legvatnið EINGÖNGU, eftir að barnið var fætt. Svo nær maður ekki að koma sér í form áður en næsta meðganga hefst, þannig að nú er bara harkan og hananú! Nú er þetta orðið opinbert og eins gott að ég standi við þessi orð mín.
Annars er allt við sinn vanagang held ég nú bara, sem mér finnst nú bara alls ekki svo slæmt. Hlynur bróðir er í DK (reyndar skrapp til Gumma í Sverige í smá heimsókn) en þar er hann í viðtölum og þreytir hin ýmsu próf til þess vonandi að komast inn í "The national filmschool of Denmark" held ég hann heiti örugglega. Hann er kominn í lotu 2 þannig að nú er bara að krossa fingur því aðeins 6 manns komast inn í þá deild sem hann óskar...... annað hvert ár. En ég hef fulla trú á honum! GO HLYNUR!!!
Jæja best að láta þessu lokið að sinni. Góðar stundir!
Íris

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Árið!

Já, ekki nema um mánuður síðan síðasta blogg var birt. Ég stend mig gríðarlega vel :) Kannski að ég hafi ekki þessa miklu þörf fyrir að tjá mig á bloggi. Það er kannski ekkert óeðlilegt miðað við að í starfi mínu tala ég frekar mikið og svo er ég í einum "föndurklúbbi", einum saumó og einum vínklúbbi...og þið sem kannist við slíkar samkomur vitið að þar eru bara málin rædd og etið þess á milli. Þannig að mér þykir ekki ólíklegt að ég leggi þessa bloggsíðu mína niður á árinu.

En, já nýtt ár er hafið, Elín Ósk orðin 2. ára og Dagmar byrjar í skóla í haust og þá er ég loksins búin með minn skóla, a.m.k. í bili. Það verður sko fagnað þá!! Vinna að lokaverkefni er hafin og er um rannsókn að ræða, þar sem við könnum hversu mikið danskan er í raun töluð í kennslustundum...það er eitt að segjast gera það og annað að framkvæma það síðan. Þetta er efni sem við vitum að leiðsögukennari okkar hefur mikinn áhuga á, því við ætluðum að gera allt annað. Þá er bara að drífa þetta af stað svo ritgerðin verði tilbúin 14. apríl!

Jólafríið var frábært og sérstaklega langt eitthvað núna fannst mér. Ég náði að klára "Mænd som hader kvinder", eftir Stieg Larsson sem var frábær og er byrjuð á bók 2 í þessari trílógíu en hún heitir "Pigen der legede med ilden" og er held ég enn betri en sú fyrsta. Ég elska að lesa svona góðar bækur og ekki spillir fyrir þegar þær eru um 500-600 bls að lengd. Það sorglega er að það er einungis ein eftir, sem segir sig sjálft þegar um trílógíu er að ræða, og enn verra að höfundurinn er ekki lengur á meðal oss. Hann lést áður en bækurnar komu út og náði því aldrei að upplifa þessar gríðarlegu vinsældir, né taka á móti öllum viðurkenningum sem bækur hans hafa hlotið. Skoðið því þessar bækur, mér finnst íslenskir krimmar fölna við samanburðinn!

Það er mikil tilhlökkun til næstu helgar, en þá er komið að Þorrablóti. Við Óskar fórum í fyrsta sinn í fyrra og skemmtum okkur mjög vel, nema að hljómsveitin var vægast sagt léleg. En nú er annað band sem mun sjá um "swingið" og því ekki að óttast að við munum deyja úr leiðindum.

Jæja, læt kannski heyra í mér aftur innan ????xxxx best að segja sem minnst um það.

Kveðja úr kotinu!

þriðjudagur, 23. desember 2008

Jólakveðja

Þegar litið er út um gluggann nú á Þorláksmessu mætti ætla að það væri 23. september en ekki desember. Það er rok og rigningin hefur séð til þess að ekki er eitt einasta snjókorn eftir. En sem betur fer hef ég verið að baka og skreyta og um leið hlustað á alíslensk jólalög sem koma mér alltaf í gott skap. Kannski að ég átti mig á því að jólin eru að koma þegar við förum í Nettó og verslum inn. Það er alltaf stemmning í búðinni og hellingur af fólki og allir í góðu skapi. Helga Dís og Co eru komin frá Osló og við eyðum aðfangadegi með þeim og tengdó á Silfurbrautinni, sem er eftir þvílíkar breytingar orðið eins og glænýtt hús. Síðan snæðum við hangikjöt á jóladag í faðmi mömmu og pabba, Hlyns, Hildar og Ídu Mekkínar, Ibbu, Haffa og Sigurðar Pálma.


Ég kem með áramótapistil þegar nær dregur gamlársdag. Þangað til vil ég óska ykkur öllum sem nenna að kíkja á þessa ekki mjög virku síðu mína, gleðilegra jóla í faðmi fjölskyldu og vina og heillaríks komandi árs.
Bestu jólakveðjur,
Íris

föstudagur, 12. desember 2008

Jííiíííha!!!

Var svo gott sem í skrifuðum orðum að skila af mér síðasta verkefni annarinnar...þvílíkur léttir. Nú get ég farið að jólast, baka og skreyta...næs næs næs! Þá er það "bara" lokaverkefnið eftir og útskrift í vor....LOKSINS..mér finnst ég vera búin að vera endalaust lengi í Kennó og satt að segja er ég komin með nóg.
Á morgun verður mikil veisla og gleði í kofanum. Veiðiklúbburinn "Von bráðar" mun bjóða mökum upp á rjúpu, gæs og annað góðgæti. Miðað við alla Gestgjafana sem þeir skoðuðu og heitin á hinu og þessu, þá lofar kvöldið mjög mjög góðu.
Fengum málverk lánað heim frá honum Hlynsa snillingi sem mér finnst ólíklegt að hann fái nokkurntíman aftur....fittar fullkomlega hingað inn..verðið bara að koma og skoða :)
Jæja ég er búin að vera svo mikið í tölvunni undanfarið að ég er komin með ógeð.
Hafið það gott og farið ekki yfirum við undirbúning jólanna...njótið hans!! Hlakka svo til að grípa loksins í "Mænd som hader kvinder", stelast í konfektmola, smákökur og jólablandið...ahhhh..namminamminamm..
Íris með bros allan hringinn:):):)