mánudagur, 3. nóvember 2008

Jólin koma...en ekki í nóvember!

Aldrei þessu vant fékk ég gríðarlega löngun til þess að fara út að skokka í gær. Líklega hafði afmælisveisla og kökuát sem henni fylgdi fyrr um daginn áhrif á þessa ákvörðun, en góð var hún engu að síður...bæði afmælisveislan og ákvörðunin. Ég rak upp stór augu þegar ég sá að í einu húsanna í götu einni hér í bæ var búið að setja upp jólaskraut. Uhhhh...er ekki örugglega bara nóvember og það bara 2. nóvember? Ég held að ég gæti ekki haft allt þetta jóladót hangandi úti um allt í svona langan tíma, þá færi ég ekkert í fílinginn. Er eitthvað varið í að hafa skreytt í 2 mánuði? Þegar aðventan hefst, þá finnst mér í lagi að fara í skúrinn og draga fram jóladótið, helst ekki fyrr.

En eftir skokkið hef ég komist að því að mig vantar nýja hlaupaskó. Þessir frekar nýlegu skór meiða mig í hvert skipti. Hef nú þegar misst nögl af annarri stórutánni vegna skónna og fengið a.m.k. þrisvar blöðrur á hælana. Spurning um að punga út í nýja...held það bara.

Skrapp suður um daginn í tæpar 2 vikur í vettvangsnám. Það var ansi gott og gagnlegt. Var hjá frábærri danskri konu sem kennir nemendum í 9. og 10. bekkjum dönsku auðvitað. Þessi umrædda kona talar litla íslensku, enda búið hér í stuttan tíma og því sá ég hvernig kennsla gengur fyrir sig þegar danska er ALLTAF töluð. Fyrir vikið verða nemendur einfaldlega að taka betur eftir og hlusta ef þeir eiga að skilja fyrirmælin og auðvitað fá þeir heilmikinn orðaforða og góða þjálfun í að hlusta og síðan að skilja málið. Ég kom því tvíefld tilbaka í vinnu með þetta markmið og fleiri skemmtilegheit í farteskinu. Reyndar runnu tvær grímur á blessaða nemendur mína við þessar fréttir...en hey...það er vont en það venst. Þetta er þeirra hagur...en þau skilja það kannski ekki fyrr en seinna :)

Þar sem ég er svo hrikalega dönsk þá þurftu frændsystkini mín, Ellert og Anna Marín, ekki að tuða lengi í mér til að fá mig út eitt kvöldið og hitta hina heimsfrægu trúða Frank og Casper, sem þau hafa kynnst nokkuð vel. Nú eins og sannir aðdáendur gera þegar þeir hitta ídólin sín þá smellti Anna Marín mynd af okkur "félögunum". Við Óskar fórum á youtube í gærkvöldi og fundum nokkur brot úr Klovn og ég get svarið fyrir að það að við grenjuðum úr hlátri. Þeir koma manni kannski ekki í jólaskapið en a.m.k. í mjög mjög gott skap!!



På gensyn!


2 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég er sammála þér með að kenna tungumál á þennan hátt. Hjartanlega sammála. Gaman að sjá frá þér blogg og flottur "hausinn" á síðunni. Farðu svo að syngja jólalög og skjóta upp rakettum:)

Linda og Peter sagði...

Vá, ég styð þig 100% í að kaupa þér nýja hlaupaskó!!
Sætar myndir af þér skvísa.
Knús frá Köben
Linda