mánudagur, 17. nóvember 2008

Veislur & eyrnalokkar

Já það er stór helgi framundan, eða öllu heldur helgar. Á laugardaginn n.k. verða litlu krúttin þeirra Hlyns & Hildar og Ibbu & Haffa skírð. Það ríkir mikil tilhlökkun og það verður gaman að eiga góðan dag með fjölskyldu og vinum. Ég er sérstaklega stolt yfir því að hafa verið boðið það skemmtilega hlutverk að vera guðmóðir lillu Hlynsdóttur og auðvitað tek ég það hlutverk alvarlega og geri mitt allra besta til að standa mig!!
Svo er "unglingurinn" á heimilinu að verða 5 ára, ójá! Hún er búin að bíða eftir því mjög mjög lengi. Það er nú ókosturinn við það að eiga afmæli seint á árinu, að maður þarf að bíða svolítið lengi og fara í mörg afmæli vina sinna áður en það loksins kemur að manni sjálfum. Vegna veisluhalda næstu helgi þá munum við halda upp á áfangann þarnæstu helgi. Unglingurinn bað um að fá göt í eyrun, sem hún fékk leyfi fyrir. Nú er hárið alltaf bakvið eyrun svo herlegheitin, "gulleyrnalokkar með bleikum demöntum", sjáist nú örugglega. Dagmar stóð sig eins og hetja og gaf ekki frá sér eitt einasta hljóð, þvílíkt dugleg. Svo sögðu mér leikskólakennarar í dag að ein skottan í skólanum væri bara með einn eyrnalokk, því þegar hún fann hve vont þetta var þá snarhætti hún við...hehe. Ég man bara að ég fékk mín göt á Akureyri og ég var nýorðin 6 ára. Það situr nú ekki í minningunni hvort ég hafi staðið mig jafn vel og dóttir mín...en ég held að mér hafi fundist þetta frekar vont. Best að vera ekkert að spyrja mömmu!

Annars er allt gott að frétta úr vinnunni og skólanum. Skólaárinu hér, og víða annarsstaðar, er skipt í þrjár annir og eru fyrri annarskil nýafstaðin með foreldraviðtölum og einkunnagjöf. Mér fannst mjög skemmtilegt loksins að sjá hvaða fólk á "börnin" mín og að spjalla aðeins. En þó að dagurinn hafi gengið áfallalaust fyrir sig og var eingöngu ánægjulegur, þá leið mér nú samt eins og ég hafi losnað við 100 kíló af herðum mér, eða sama tilfinning og þegar ég er búin í prófi...sem gekk vel auðvitað.

Jæja, hún Elín mín kallar á mömmu sína....en alveg frá því ég kom frá RVK úr staðlotunni er sú stutta mömmusjúk og ég þarf að gera allt...."etti babbi!"

Heyrumst!
Kv. Íris

mánudagur, 3. nóvember 2008

Jólin koma...en ekki í nóvember!

Aldrei þessu vant fékk ég gríðarlega löngun til þess að fara út að skokka í gær. Líklega hafði afmælisveisla og kökuát sem henni fylgdi fyrr um daginn áhrif á þessa ákvörðun, en góð var hún engu að síður...bæði afmælisveislan og ákvörðunin. Ég rak upp stór augu þegar ég sá að í einu húsanna í götu einni hér í bæ var búið að setja upp jólaskraut. Uhhhh...er ekki örugglega bara nóvember og það bara 2. nóvember? Ég held að ég gæti ekki haft allt þetta jóladót hangandi úti um allt í svona langan tíma, þá færi ég ekkert í fílinginn. Er eitthvað varið í að hafa skreytt í 2 mánuði? Þegar aðventan hefst, þá finnst mér í lagi að fara í skúrinn og draga fram jóladótið, helst ekki fyrr.

En eftir skokkið hef ég komist að því að mig vantar nýja hlaupaskó. Þessir frekar nýlegu skór meiða mig í hvert skipti. Hef nú þegar misst nögl af annarri stórutánni vegna skónna og fengið a.m.k. þrisvar blöðrur á hælana. Spurning um að punga út í nýja...held það bara.

Skrapp suður um daginn í tæpar 2 vikur í vettvangsnám. Það var ansi gott og gagnlegt. Var hjá frábærri danskri konu sem kennir nemendum í 9. og 10. bekkjum dönsku auðvitað. Þessi umrædda kona talar litla íslensku, enda búið hér í stuttan tíma og því sá ég hvernig kennsla gengur fyrir sig þegar danska er ALLTAF töluð. Fyrir vikið verða nemendur einfaldlega að taka betur eftir og hlusta ef þeir eiga að skilja fyrirmælin og auðvitað fá þeir heilmikinn orðaforða og góða þjálfun í að hlusta og síðan að skilja málið. Ég kom því tvíefld tilbaka í vinnu með þetta markmið og fleiri skemmtilegheit í farteskinu. Reyndar runnu tvær grímur á blessaða nemendur mína við þessar fréttir...en hey...það er vont en það venst. Þetta er þeirra hagur...en þau skilja það kannski ekki fyrr en seinna :)

Þar sem ég er svo hrikalega dönsk þá þurftu frændsystkini mín, Ellert og Anna Marín, ekki að tuða lengi í mér til að fá mig út eitt kvöldið og hitta hina heimsfrægu trúða Frank og Casper, sem þau hafa kynnst nokkuð vel. Nú eins og sannir aðdáendur gera þegar þeir hitta ídólin sín þá smellti Anna Marín mynd af okkur "félögunum". Við Óskar fórum á youtube í gærkvöldi og fundum nokkur brot úr Klovn og ég get svarið fyrir að það að við grenjuðum úr hlátri. Þeir koma manni kannski ekki í jólaskapið en a.m.k. í mjög mjög gott skap!!



På gensyn!