mánudagur, 30. júní 2008

Ekki lent.....




Nei það eru sko orð með sönnu, við hjónin eru algjörlega í skýjunum ennþá. Brúðkaupsdagurinn var fullkominn í alla staði og rúmlega það. Athöfnin frábær, séra Baldur skemmtilegur, söngurinn æðislegur og Óskar auðvitað laaangmyndarlegastur!!! Djömmuðum til að verða 3.30 og allir í rífandi stuði.
Ástarþakkir til ykkar allra fyrir að fullkomna þennan stóra dag sem við munum aldrei gleyma. Einnig kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar og fallegar gjafir.
Knús og kossar,
frú Arason
p.s. Nokkrar myndir sem teknar voru af honum Hlynsa bró snillingi. Þetta er smá upphitun en ég mun setja inn fleiri þegar þær koma í hús.

þriðjudagur, 24. júní 2008

Fröken Íris kveður

og það verður FRÚ Íris sem mun skrifa næsta pistil. Mér finnst það að vera FRÚ hljóma eitthvað svo gamaldags, eins og ég sé orðin sjötug. En nú taka við miklar annir í sambandi við stóra daginn og því má ég ekkert vera að þessum skrifum og kveð ykkur að sinni.
Bestu kveðjur frá frökeninni :-)

föstudagur, 13. júní 2008

Allt mögulegt....

Jájá, tíminn heldur áfram að fljúga áfram á methraða. Ég er enganveginn að skilja að ég sé að fara að gifta mig eftir 2 vikur, ómæ ómæ! Nú er búið að leggja inn STÓRA pöntun í ÁTVR sem vonandi mun duga gestum eitthvað frameftir nóttu og sjá til þess að það verði mikið húllumhæ og trallala. Einnig er góður maður á staðnum búinn að láta okkur fá trilljón lög sem við Óskar verðum að drífa okkur í að skoða og velja úr þau lög sem við teljum að muni halda uppi stuðinu (í bland við vökvann úr ÁTVR:). Og að sjálfsögðu verða nokkur velútvalin "bömp" lög, en þeir sem hafa einhvern tímann verið í partýi með fólki úr minni familíu vita hversu margir eru bömpóðir, að ógleymdum og sérpöntuðum ABBA og Pointer Sisters lögum....... en þeir sem ekki fýla þessháttar tónlist verða bara að gjöra svo vel að drekka meira og drífa sig í tjúttstuðið! Annars verða þeir bara dregnir útá gólfið af mömmu og öllum hinum ABBA -lýðnum. Í okkar brúðkaupi er skylda að skemmta sér vel og leeeengi. Einhvernveginn hef ég ótrúlega litlar, sem engar, áhyggjur af því að fólki mun leiðast, því allir þeir sem verða í Mánagarði þann 28. júní n.k. eru bara lífsglaðir og skemmtilegir einstaklingar.
En talandi um allt þetta áfengi þá er ég ótrúlega léleg þegar kemur að því að drekka vín. Hann Óskar minn fer bráðum að hafa áhyggjur af þessu, bindindismaðurinn sjálfur! Hvar annarsstaðar en heima hjá mér rennur áfengið út!!??? Ég keypti 2 kippur af julebryg öli í fríhöfninni þegar við mamma fórum til Köben í lok október s.l. Ég var búin að steingleyma þeim þar til áðan...ákvað að skella einum í kæli og var þá litið á dagsetninguna...rann út í febrúar! Þetta gengur auðvitað ekki. Opnaði eina hvítvín um síðustu helgi fyrir okkur Hlynsa bró og hún er enn ókláruð inni í kæli, viku seinna..... ég bæti úr þessu í Króatíu, engin spurning.
En yfir í allt annað, eiginlega framhaldssöguna um hana Elínu mína og eyrun hennar, en margir hafa fylgst með spennandi og ansi reglulegum lýsingum af veikindum hennar frá því 4. janúar á þessu ári ;) Þessi elska er aldeilis ekki búin að fá pensillín skammtinn fyrir árið...ónei, komin með sýkingu í vinstra eyrað og beint á uppáhaldsmeðalið sitt Kåvepenin. Vona að þetta sé endanlegur endir í þessari spennandi seríu...
Annar og mun alvarlegri hlutur átti sér stað í gær þegar tengdapabbi slasaði sig við vinnu sína og missti fingur, vísifingur hægri handar. Þetta var auðvitað mikið sjokk en hann er bara brattur kallinn og þakklátur fyrir að ekki fór enn ver.

Já það er s.s. allt að gerast hér, gott og miður gott, en allir eru fullir bjartsýni og hrikalega jákvæðir!!!
Kveðja....Íris ofurspennta!

fimmtudagur, 5. júní 2008

Spennandi tímar framundan..

Já nú er bjart yfir öllu, annað en í þegar síðasti pistill var ritaður :) Við erum farin að hlakka ótrúlega mikið til stóra dagsins sem nálgast óðfluga. Ég á erfitt með að trúa því að það sé að koma að þessu, það hefur alltaf verið svo langt þangað til...nema núna. Ég skrapp í prufugreiðslu til Ellýjar í fyrradag og lukkaðist það allt saman vel, enda höfðum við nákvæmlega það sama í huga. Óskar fékk fyrirmæli um að safna hári fram að brúðkaupi svo möguleikarnir á nýju lúkki verði meiri...hehe..hann er orðinn ansi lummó núna, ekki annað hægt að segja um það. Það eina sem mig vantar eru nærföt og þau réttu fæ ég ekki hér á staðnum, ég bara nenni ekki að fara alla leið til RVK til þess eins að kaupa nærföt...en ég veit ekki hvernig ég leysi þetta mál öðruvísi.

Annars er ég að vinna í Nettó, sem er bara fínt. Þar er alltfa nóg að gera og maður nær aldrei að klára allt það sem maður hefði viljað ná að gera þann daginn. Tíminn er líka merkilega fljótur að líða, sem er auðvitað mikill kostur því hangs á ekki við mig. Ég verða að vinna þar til stelpurnar fara í sumarfrí, um miðjan júlí. Stefnt er að því að skreppa í nokkrar útilegur með hjólhýsið þeirra mö og pa, en það verður a.m.k. farið norður til Bjarka og Co, annars verður reynt að elta góða veðrið sem verður vonandi til staðar.

Síðustu tvo daga hef ég verið uppí skóla að undirbúa næsta skólaár og þá aðallega dönskuna. Ég mun s.s. kenna 8. bekkingum íslensku og dönsku, ásamt því að kenna örum bekknum lífsleikni, sá bekkur verður umsjónarbekkurinn minn. Þetta er 92 % stöðuhlutfall og fyrir óreynda manneskju eins og mig verður þetta án efa meira en nóg ásamt náminu auðvitað. Ég er búin að fá allt námsefnið heim og stefni á að rifja upp hin ýmsu hugtök og heiti sem við koma íslenskri málfræði, en hana lærði ég eiginlega aldrei þar sem hún er að mestu kennd í gaggó og þá bjó ég í DK. En þetta er þarna einhversstaðar deep down under og þá er bara að draga þetta upp úr viskubrunninum. Þetta verður allt saman mjög gaman og ég hlakka mikið til.

Aðlögunin hjá henni Elínu minni er öll að koma, hún vælir slatta þegar við kveðjumst á morgnana en það stendur sem betur fer stutt yfir. Þær systur eru í leikskólanum frá 8-15 í sumar en neyðast til að vera til 16 þegar ég fer að vinna í haust. Þetta er ansi langur dagur finnst mér fyrir litlar manneskjur, en svona er bara Ísland í dag og peningarnir vaxa ekki á trjánum, því er nú ver.

Það er s.s. spenna og tilhlökkun í loftinu hér á Mánabrautinni....JEIJ!!
KV, Íris