fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Ég elska.....

útsýnið mitt. Þegar við fluttum í stóra og fína húsið okkar þá var ég með það alveg á hreinu hvar tölvuherbergið ætti að vera, nefnilega þar sem útsýnið er hvað best! Þegar maður situr á afturendanum svona flesta virka daga frá 9-3 þá skiptir þetta svo gífurlega miklu máli. Útsýnið gefur manni svo mikinn innblástur þegar heilinn er dofinn, sem á það til að gerast...believe you me. Útsýnið er sjaldan betra en einmitt á svona dögum eins og í dag. Smá frost, logn, heiðskírt, sólskin og allt hvítt...fjalla- og jöklasýnin er ólýsanleg...en mig langar samt alltaf í aðeins meira. Vildi að ég gæti fært húsið mitt nær golfvellinum svo ég hefði panoramaview. Spurning hvort golfáhugamenn myndu ekki sýna mér skilning og færa braut 1 eða 2, nú eða bara golfskálann? Einfaldast væri kannski bara að taka smá ofan af hólnum sem blokkerar útsýnið....
En yfir í allt annað. Nú styttist í að verðandi kennarinn þurfi að fara að æfa sig í kennslu 7 ára barna. Ég er búin að liggja yfir gerð kennsluáætlana með stöllu minni úr KHÍ og get ekki beðið eftir að þeirri vinnu ljúki...sem mætti gjarnan verða í kvöld!! Þá fara næstu tvær vikurnar í það að fræða blessuð börnin um íslenskar þjóðsögur og Kötlugos, svo e-ð sé nefnt...eins gott að kynna sér málin áður. Þetta verður kærkomin tilbreyting frá kyrrsetunni og einverunni hérna heima og verður ábyggilega líf og fjör!! Svo mun bara koma í ljós hvort mér takist að vekja áhuga þeirra...vil helst ekki að þau fari heim og kvarti yfir "nýja" kennaranum, eða "starfsmanni í þjálfun" eins og ein í bekknum kallaði mig alltaf í áheyrninni :)
Annars er Elín mín bara brött, enda enn að taka inn meðalið sitt.... en við bíðum bara eftir að sérfræðingurinn bjalli í okkur og kalli hana í rör. Annars væri það alveg eftir bókinni að hún fengi aftur í eyrum um páskana, en þá eru allir sjúkdómar BANNAÐIR og öll veikindi BÖNNUÐ. Við fáum nefnilega Bjarka bró, Erlu, Arnór og Önnu í heimsókn, og við nennum engu veikindastússi..og hana nú!!

Hafið það gott ..... kv, sveitapían með góða útsýnið

laugardagur, 23. febrúar 2008

Allt í plati!

Já, bælið lifnaði við en bara í smá tíma...oooooooohhhhhhhhh. Elsku litla Elín mín komin með í eyrun AFTUR og að þessu sinni er hljóðhimnan í öðru eyranu sprungin en mikil bólga í hinu. Það er svo merkilegt að þessi veikindi undanfarið hafa alltaf blossað upp á nóttunni og um helgar. En núna er heimsókn á heilsugæsluna lokið og hún s.s. komin á pensillínskammt nr. 4 og tegund nr. 4, ekki gott :( Vonumst til að fá tíma hjá sérfræðingi í vikunni og fá í framhaldinu tíma fyrir barnið í röraísetningu, annað er ekki hægt í þessari stöðu.
Ég ætlaði að skreppa í borgina á mánudainn og vera fram á föstudag vegna staðlotu í skólanum, en það verður ekkert úr þeirri ferð því miður. Hefði þurft að klára stærsta verkefni annarinnar um helgina með stöllu minni hér á Höfn, en það mun að öllum líkindum ekki takast vegna veikindanna og því þarf ég að blása ferðina af og vinna í verkefninu í vikunni.
En annars er allt gott af öllum öðrum í familíunni og hún Dagmar mín skrapp á ístöltmót á Eiðum með ömmu Ellu og afa Pálma. Ég hugsa um það oft á dag hvað það er yndislegt að hafa ömmurnar og afana svona nálægt okkur, og ég segi nú bara alveg eins og er, að ef ömmurnar væru ekki á staðnum þá væri ég í mjög DJÚPUM SK.. í náminu. Ég er þeim innilega þakklát og vona að þær viti það nú þegar.
Jæja ég held ég bulli ekki meira í bil og fari að sofa eftir 29 tíma vakt!
ZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz.......................

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Bælið er að lifna við :)

Mikið lifandi skelfingar ósköp er ég fegin því að heilsa dætra minna sé komin í lag 7-9-13. Nú er lífið farið að taka aftur á sig hina hversdagslegu mynd, allir í sinni vinnu, kátir og glaðir eins og það á að vera. Nú þarf ég að taka mig á í lærdómnum og vinna upp það sem ekki gafst tími fyrir að framkvæma, en það er pís of keik.
Nú erum við skötuhjúin farin að hugsa um allt aðra hluti en veikindi, nefnilega brúðkaupið og ýmislegt sem því viðkemur. Nú er farið að vinna í boðskortum, erum með mjög áreiðanlegan starfskraft sem sér um þau mál, hana Helgu Dís:) Nú bíðum við spennt eftir útkomunni. Svo er það brúðkaupsferðin sem á hug okkar þessa dagana, en fyrirhugað er að við TVÖ skreppum í viku til Króatíu þar sem við ætlum að dekra við okkur á góðu hóteli. Það skal tekið fram að við hótelleitina reyni ég að sigta út það hótel sem minnstar líkur eru á að sé yfirfullt af börnum...jámm ég viðurkenni það hér með! Svona er maður nú sjálfselskur :) Það er s.s. planið að fara í viku í byrjun Ágúst. Ef eitthvert ykkar sem les þetta hefur upplifað norðuhluta Króatíu, þá má hinn sami gjarnan deila þeirri reynslu með okkur.
Svo er planið að fara að hrista af sér spikið, því nóg er í boði í sveitinni. Ég gæti t.d. skroppið í blak, sundleikfimi, konu"fimleika" nú eða í ræktina og tíma hjá Kollu. Reyndar er badmintonið á óhentugum tíma, en það finnst mér skemmtileg íþrótt.
Nú jæja, ekki var það fleira að sinni.
Yfir til ykkar...Íris

laugardagur, 2. febrúar 2008

Nýtt lögheimili: Heilsugæslan

Já það er ekkert lát á veikindum á þessum bæ frekar en fyrri daginn. Þessi janúarmánuður er búinn að vera alveg ótrúlegur. Elín mín byrjaði á því að fá hálsbólgu þann 4. janúar á afmælisdaginn sinn og í framhaldinu háan hita, farið var á heilsugæsluna og henni gefin sýklalyf. Litla greyið lagaðist nú lítið sem ekkert, var með svo mikla hálsbólgu að það mætti líkja við rödd 70 ára kellingar sem hefði drukkið 1 lítra af viský á dag frá fæðingu (svona cirka:). Ekki lagaðist þetta, hún borðaði kannski eina krukkumauk á heilum 5 dögum (og nú er ég ekki að ýkja). Litlu sætu lærakeppirnir voru farnir að láta á sjá, fyllingin að hverfa. Ákveðið var að fara aftur uppá heilsugæslu, niðurstaðan var vírus. Ekkert hægt að gera nema að stíla hana reglulega og vona að vírusinn fari fljótt. Eftir 10 daga veikindi var mín orðin frísk, sem kom sér vel því ég þurfti að fara í staðlotu til RVK, tók Dagmar með mér. Við mæðgurnar skemmtum okkur konunglega, fórum í leikhús að sjá Gosa, og hittum vini og ættingja sem maður sér allt of sjaldan, sem sagt svaka gaman. Við Dagmar komum heim á föstudegi og þar bíður Elín litla eftir okkur...lasin! Hringjum uppá Heilsó, niðurstaða annar vírus en ekki eins skæður, ætti að taka 3-5 daga, algengt að fá eftir fyrri veikindin. OK! Jæja, Elín mín varð hress á fimmta degi og gat skroppið til Birnu dagmömmu í nokkur skipti, henni til mjög mikillar ánægju. Greyið litla var farið að toga í útigallan sinn og barnavagninn í forstofunni og BIÐJA um að komast út. Ekki entist þetta nú lengi, því nokkrum dögum síðar var hún orðin slöpp...NEIIIII!!! Fór með hana uppá Heilsó, niðurstaðan, eyrnabólga og þ.a.l. sýklalyf again. Kvöldið eftir vaknar Dagmar Lilja upp með látum og kvartar yfir því að finna til í eyrunum. Fór með hana uppá Heilsó, niðurstaða eyrnabólga! Eyrnabólgusysturnar kláruðu sýklalyfjaskammtana sína í fyrradag og Elín búin að vera svaka spræk en ennþá svona hás...vona að það lagist fljótt. Í gær var Elín komin með hita, nefrennsli og hósta, öll einkenni eyrnabólgu....eigum tíma á mánudagsmorgunn. Dagmar Lilja aftur á móti finnur ekki lengur til í eyrunum, en nú vill hún alls ekki pissa því það er svo sárt. Hún grét á klóinu í dag og kvöld og orgaði af sársauka. Líklega blöðrubólga...hittum lækninn á morgun, vonandi með þvagsýni, ef hún fæst til að pissa.......greyin!!!
Vona að þessi mikli mánuður veikinda og sýklalyfja verði ekki öllu lengur en "bara" mánuður...fer samt að skríða inn í mánuð nr.2.
Ekki hressandi pistill að þessu sinni, en svona er nú bara Ísland í dag!
GEISP....Íris