sunnudagur, 23. desember 2007

Gleðileg jól kæru vinir & vandamenn


Það styttist óðum í að klukkurnar hringi inn jólin. Nóg er á dagskrá morgundagsins og því tilvalið að henda nokkrum hugsunum á "blað" í kvöld. Ilmurinn af hamborgarhryggnum, klukknahljómurinn kl. 18 og útvarpsmessan í framhaldinu eru merki þess að jólin eru komin á mínum bæ. Þegar stelpurnar eldast förum við kannski með þær í messu, en það verður ekki þessi jólin. Við erum búin að skreyta þetta fína tré sem Óskar og Dagmar völdu í vikunni. Dagmar er loksins komin á þann aldur að hún er farin að skilja meira og taka þátt í udirbúningnum á margan hátt, sem okkur foreldrunum finnst svo skemmtilegt. Hún tók t.d. mjög virkan þátt í að skreyta tréð fyrr í kvöld, skrifaði á pakkaspjöld og skreytti piparkökur svo eitthvað sé nefnt.
Ég var að horfa og hlusta á hana Svanfríði á bloggsíðu hennar, en hún býr í USA. Það er eitthvað við þennan tíma sem veldur því að hugsanir manns fara á fullt, jákvæðar hugsanir. Á hverju ári á þessum tíma hugsa ég hvað ég er einstaklega heppin og rík að eiga frábærann mann og tvo gullmola. Ég fyllist þakklæti fyrir það hvað ég á góða að, yndislega fjölskyldu og góða vini. Við Svanfríður eigum nefnilega það sameiginlegt að í okkur báðum slær agnarlítið músarhjarta og á þessum tímum, sérstaklega, verður maður e-ð svo viðkvæmur.


Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að ykkur öllum líði jafn vel í hjartanu og mér :)

Íris

föstudagur, 21. desember 2007

Bleik jól!


Þá fer að koma að því, 31. jólin mín. Eðlilega man ég ekki eftir þeim öllum, en ein og ein minning poppar fram annað veifið. Mér eru sérstaklega minnisstæð þau jól þar sem ég hefði komist að því hvað ég fengi í jólagjöf frá pabba & mömmu fyrir aðfangadag. Ég var með eindæmum forvitið barn og ég var alltaf jafn svekkt út í sjálfan mig eftir að ég hafði fundið leynipakkastaðinn og séð gjöfina handa mér, en samt gerði ég þetta!! Ég er þekkt fyrir mitt músarhjarta og sem barn var ég voðalega lítið hrifin af jólasveinum. Þegar ég var 4-5 ára bjuggum við í Bolungarvík og eyddum jólunum með Tobbu systur mömmu og Kristjáni manninum hennar. Á aðfangadagskvöld er bankað á útihurðina og mitt litla hjartatók kipp!! Inn kom jólasveinninn og ég sat sem fastast í fangi mömmu og þorði lítið sem ekkert að gera. Eftir að sveinki fór aftur og við fórum að ræða þessa upplifun betur, hafði ég aðeins eitt að segja og það var ,,Af hverju var jólasveinninn í konustígvélum?" Þá hafði Tobba skellt sér í búning og leðurstígvélin sín.... svona feminin jólasveinn!!

Þið sem ekki kannist við málið veltið eflaust fyrir ykkur hvaða mynd þetta er hér að ofan. Þessa mynd og fleiri myndir af bleikum femínistajólasveinum má finna á síðu einnar MJÖG harðrar femínistakonu hér á landi, Sóleyjar Tómasdóttur. Um er að ræða myndir af jólasveinunum ásamt texta sem prýða jólakort femínistafélags Íslands. Veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða þetta en mér finnst þetta allt allt of langt gengið. Ég tel mig vera femínista og vil jafnrétti í einu og öllu....en þarf að blanda jólasveinunum í málið?!! Smekkleysu má kannski kalla þetta. a.m.k. leiðist mér þegar þörf umræða verður að vitleysu eins og þessari!!
Íris....rauði jólasveinninn

föstudagur, 14. desember 2007

jólajólajólajóla...

Þá er jólaundirbúningur hafinn hér á Mánabrautinni fyrir alvöru. Rauð jólasería hangir framan á húsinu, inniljós hér og þar og svo auðvitað jóladúkar og aðventuljós. Húsmóðirin ég fór meira að segja út í blómabúð og keypti efni í útikrans, en slíkt föndur er ég síður en svo þekkt fyrir. Ég fékk góðar leiðbeiningar og aðstoð mömmu við að koma honum saman, og er ég bara hin ánægðasta með útkomuna. Svo skellti ég í súkkulaðibitasmákökur sem lukkuðust líka glimrandi vel og bragðast sem betur fer líka jafn vel. Held að þessi lyftidufts-natron uppgötvun mín sé loks farin að skila árangri!! About time!
Eitt af því besta sem ég veit, er að lesa góða bók, það er minn quality time. Nú eru skólabækurnar komnar til hliðar og LOKSINS er ég farin að lesa Flugdrekahlauparann. Þetta er reyndar í þriðja sinn sem ég byrja, en sökum anna hefur bókin alltaf verið lögð til hliðar. Núna er ég komin langt með hana og get varla lagt hana frá mér. Ef þið hafið ekki lesið hana, þá er óhætt að mæla með henni.

Nú fær hún Dagmar Lilja í skóinn í fyrsta sinn, en hún talaði ekkert um þetta á síðasta ári og því fannst okkur tilgangslaust að byrja á þvi þá. Á hverjum morgni segir hún ,,mamma, sjáðu hvað Stekkjarstaur (eða hver sá sem kom þá nóttina) var ánægður með mig!" Og svo er svo leikandi létt að koma henni í rúmið þessari elsku, reyndar hefur það nú aldrei verið vandamál, en nú er enn meiri ástæða til að drífa sig í háttinn. Einn ókostur fylgir þessari heimsókn jólasveinanna og það er hversu áköf hún er að drífa sig fram úr á morgnanna, nú er ekkert verið að kúra..ónei!!


Á von á nokkrum kvennsum í heimsókn í kvöld, ætla að bjóða "föndurklúbbspíum" (með áherslu á föndur :) í spæsí súpu og öl, og svo verður líklega farið í leiki og ekki má gleyma jólapakkalottóinu. Kannski maður fari þá að taka til hendinni hér heima á meðan skotturnar mínar eru ekki á staðnum.
Gangi ykkur vel í jólaundirbúningnum!
Kv, Sveitapían


fimmtudagur, 6. desember 2007

Ó hvílíkt frelsi!!

Frábær tilfinning að vera búinn með skólann á þessu ári a.m.k. Þá tekur bara eintóm sæla við án námsbóka í heilan mánuð, getur ekki orðið betra!! Gat ekki varist brosi þegar ég gekk út úr prófstofunni, enda ekkert lítil verkefnagleði kennara á önninni og mikil vinna þar af leiðandi. Það er svo kósý stemning hérna í sveitinni, að öllum sem voru í prófi var úthlutað sprittkerti til að ná slökun. Svei mér þá ef það hefur ekki bara virkað!
Nú ætla ég s.s. að leggja mig alla fram við að komast í jólagírinn, skreyta hátt og lágt, kaupa jólagjafir, prenta jólakort, BAKA og hlusta á yndisleg jólalög. En ég er búin að komast að því hve lítið jólaskraut ég á núna, miðað við þegar ég bjó í Hraunbænum, húsið er svo stórt! Geri það besta úr því sem til er, sem vonandi dugar. Held samt að það þurfi ekki mikið til, ég er nú þegar komin í þvílíkt jólastuð :) Og svona til þeirra sem eru jafn litlir bakarar og ég, en ALLT mislukkast sem ég reyni að baka, þá er ég búin að komast að því að lyftiduft og natron er EKKI það sama (og ég nýbúin að fatta það,31 árs gömul...sssshhhhhhh ekki segja)!! Hahahaha....nútímahúsmóðir eða hvað?
Jæja, út með skólann inn með jólin:) Jibbí
Kv, Íris Konditori