þriðjudagur, 23. desember 2008

Jólakveðja

Þegar litið er út um gluggann nú á Þorláksmessu mætti ætla að það væri 23. september en ekki desember. Það er rok og rigningin hefur séð til þess að ekki er eitt einasta snjókorn eftir. En sem betur fer hef ég verið að baka og skreyta og um leið hlustað á alíslensk jólalög sem koma mér alltaf í gott skap. Kannski að ég átti mig á því að jólin eru að koma þegar við förum í Nettó og verslum inn. Það er alltaf stemmning í búðinni og hellingur af fólki og allir í góðu skapi. Helga Dís og Co eru komin frá Osló og við eyðum aðfangadegi með þeim og tengdó á Silfurbrautinni, sem er eftir þvílíkar breytingar orðið eins og glænýtt hús. Síðan snæðum við hangikjöt á jóladag í faðmi mömmu og pabba, Hlyns, Hildar og Ídu Mekkínar, Ibbu, Haffa og Sigurðar Pálma.


Ég kem með áramótapistil þegar nær dregur gamlársdag. Þangað til vil ég óska ykkur öllum sem nenna að kíkja á þessa ekki mjög virku síðu mína, gleðilegra jóla í faðmi fjölskyldu og vina og heillaríks komandi árs.
Bestu jólakveðjur,
Íris

föstudagur, 12. desember 2008

Jííiíííha!!!

Var svo gott sem í skrifuðum orðum að skila af mér síðasta verkefni annarinnar...þvílíkur léttir. Nú get ég farið að jólast, baka og skreyta...næs næs næs! Þá er það "bara" lokaverkefnið eftir og útskrift í vor....LOKSINS..mér finnst ég vera búin að vera endalaust lengi í Kennó og satt að segja er ég komin með nóg.
Á morgun verður mikil veisla og gleði í kofanum. Veiðiklúbburinn "Von bráðar" mun bjóða mökum upp á rjúpu, gæs og annað góðgæti. Miðað við alla Gestgjafana sem þeir skoðuðu og heitin á hinu og þessu, þá lofar kvöldið mjög mjög góðu.
Fengum málverk lánað heim frá honum Hlynsa snillingi sem mér finnst ólíklegt að hann fái nokkurntíman aftur....fittar fullkomlega hingað inn..verðið bara að koma og skoða :)
Jæja ég er búin að vera svo mikið í tölvunni undanfarið að ég er komin með ógeð.
Hafið það gott og farið ekki yfirum við undirbúning jólanna...njótið hans!! Hlakka svo til að grípa loksins í "Mænd som hader kvinder", stelast í konfektmola, smákökur og jólablandið...ahhhh..namminamminamm..
Íris með bros allan hringinn:):):)

mánudagur, 17. nóvember 2008

Veislur & eyrnalokkar

Já það er stór helgi framundan, eða öllu heldur helgar. Á laugardaginn n.k. verða litlu krúttin þeirra Hlyns & Hildar og Ibbu & Haffa skírð. Það ríkir mikil tilhlökkun og það verður gaman að eiga góðan dag með fjölskyldu og vinum. Ég er sérstaklega stolt yfir því að hafa verið boðið það skemmtilega hlutverk að vera guðmóðir lillu Hlynsdóttur og auðvitað tek ég það hlutverk alvarlega og geri mitt allra besta til að standa mig!!
Svo er "unglingurinn" á heimilinu að verða 5 ára, ójá! Hún er búin að bíða eftir því mjög mjög lengi. Það er nú ókosturinn við það að eiga afmæli seint á árinu, að maður þarf að bíða svolítið lengi og fara í mörg afmæli vina sinna áður en það loksins kemur að manni sjálfum. Vegna veisluhalda næstu helgi þá munum við halda upp á áfangann þarnæstu helgi. Unglingurinn bað um að fá göt í eyrun, sem hún fékk leyfi fyrir. Nú er hárið alltaf bakvið eyrun svo herlegheitin, "gulleyrnalokkar með bleikum demöntum", sjáist nú örugglega. Dagmar stóð sig eins og hetja og gaf ekki frá sér eitt einasta hljóð, þvílíkt dugleg. Svo sögðu mér leikskólakennarar í dag að ein skottan í skólanum væri bara með einn eyrnalokk, því þegar hún fann hve vont þetta var þá snarhætti hún við...hehe. Ég man bara að ég fékk mín göt á Akureyri og ég var nýorðin 6 ára. Það situr nú ekki í minningunni hvort ég hafi staðið mig jafn vel og dóttir mín...en ég held að mér hafi fundist þetta frekar vont. Best að vera ekkert að spyrja mömmu!

Annars er allt gott að frétta úr vinnunni og skólanum. Skólaárinu hér, og víða annarsstaðar, er skipt í þrjár annir og eru fyrri annarskil nýafstaðin með foreldraviðtölum og einkunnagjöf. Mér fannst mjög skemmtilegt loksins að sjá hvaða fólk á "börnin" mín og að spjalla aðeins. En þó að dagurinn hafi gengið áfallalaust fyrir sig og var eingöngu ánægjulegur, þá leið mér nú samt eins og ég hafi losnað við 100 kíló af herðum mér, eða sama tilfinning og þegar ég er búin í prófi...sem gekk vel auðvitað.

Jæja, hún Elín mín kallar á mömmu sína....en alveg frá því ég kom frá RVK úr staðlotunni er sú stutta mömmusjúk og ég þarf að gera allt...."etti babbi!"

Heyrumst!
Kv. Íris

mánudagur, 3. nóvember 2008

Jólin koma...en ekki í nóvember!

Aldrei þessu vant fékk ég gríðarlega löngun til þess að fara út að skokka í gær. Líklega hafði afmælisveisla og kökuát sem henni fylgdi fyrr um daginn áhrif á þessa ákvörðun, en góð var hún engu að síður...bæði afmælisveislan og ákvörðunin. Ég rak upp stór augu þegar ég sá að í einu húsanna í götu einni hér í bæ var búið að setja upp jólaskraut. Uhhhh...er ekki örugglega bara nóvember og það bara 2. nóvember? Ég held að ég gæti ekki haft allt þetta jóladót hangandi úti um allt í svona langan tíma, þá færi ég ekkert í fílinginn. Er eitthvað varið í að hafa skreytt í 2 mánuði? Þegar aðventan hefst, þá finnst mér í lagi að fara í skúrinn og draga fram jóladótið, helst ekki fyrr.

En eftir skokkið hef ég komist að því að mig vantar nýja hlaupaskó. Þessir frekar nýlegu skór meiða mig í hvert skipti. Hef nú þegar misst nögl af annarri stórutánni vegna skónna og fengið a.m.k. þrisvar blöðrur á hælana. Spurning um að punga út í nýja...held það bara.

Skrapp suður um daginn í tæpar 2 vikur í vettvangsnám. Það var ansi gott og gagnlegt. Var hjá frábærri danskri konu sem kennir nemendum í 9. og 10. bekkjum dönsku auðvitað. Þessi umrædda kona talar litla íslensku, enda búið hér í stuttan tíma og því sá ég hvernig kennsla gengur fyrir sig þegar danska er ALLTAF töluð. Fyrir vikið verða nemendur einfaldlega að taka betur eftir og hlusta ef þeir eiga að skilja fyrirmælin og auðvitað fá þeir heilmikinn orðaforða og góða þjálfun í að hlusta og síðan að skilja málið. Ég kom því tvíefld tilbaka í vinnu með þetta markmið og fleiri skemmtilegheit í farteskinu. Reyndar runnu tvær grímur á blessaða nemendur mína við þessar fréttir...en hey...það er vont en það venst. Þetta er þeirra hagur...en þau skilja það kannski ekki fyrr en seinna :)

Þar sem ég er svo hrikalega dönsk þá þurftu frændsystkini mín, Ellert og Anna Marín, ekki að tuða lengi í mér til að fá mig út eitt kvöldið og hitta hina heimsfrægu trúða Frank og Casper, sem þau hafa kynnst nokkuð vel. Nú eins og sannir aðdáendur gera þegar þeir hitta ídólin sín þá smellti Anna Marín mynd af okkur "félögunum". Við Óskar fórum á youtube í gærkvöldi og fundum nokkur brot úr Klovn og ég get svarið fyrir að það að við grenjuðum úr hlátri. Þeir koma manni kannski ekki í jólaskapið en a.m.k. í mjög mjög gott skap!!



På gensyn!


fimmtudagur, 25. september 2008

Ég er hér..

Já ég veit eiginlega ekki hvers vegna í ósköpunum ég er að rembast við að blogga. Þegar maður er að kenna og í kennaranámi þá er einhvernveginn voðalega lítið spennandi að gerast. Þar fyrir utan hefur maður svo afskaplega lítinn tíma til að sinna hinum ýmsu áhugamálum....hvaða áhugamál svo sem það eru??"!" Ég hafði nú oft heyrt hvað kennarastarfið væri nú mikil vinna og svona en bjóst svo sem ekki við að það væri meira en gengur og gerist hjá öðru fólki í öðrum störfum. Við skulum bara orða þetta svona....vona að þetta sé bara svona fyrsta árið. Það er ótrúlega tímafrekt að koma sér upp sínum "kennslupakka", búa til sín eigin námsmatstæki og átta sig á hvað sé í boði fyrir krakkana. En ég er ekki að kvarta...kannski kvartar Óskar bráðum á blogginu hans....en mér finnst þetta mjög gaman og ég hlakka bara til að takast á við vinnudaginn.

Ég gaf mér þó tíma til að skreppa á tónleika fyrir tæpri viku síðan. Friðrik Ómar tók rúnt um Suður?land...Austur?land..Suð-austurland? allavega firðina og kom síðan við hér. Prógrammið hans eru lög Vilhjálms Vilhjálmssonar ásamt nokkrum öðrum perlum við undirleik Grétars Örvarssonar. Tónleikarnir voru haldnir í Hafnarkirkju og plataði ég Kollu og Sonju með mér. Og svona af því við vorum í guðs húsi, þá verð ég bara að segja "Guð minn góður hvað var gaman". Þessi ungi drengur hefur ekkert eðlilega fallega rödd. Það er eins og hann hafi ekkert fyrir þessu. Hann söng í 1 og 1/2 tíma svo gott sem non stop og rabbaði aðeins á milli laga sem var þrælskemmtilegt. Það myndaðist svo skemmtileg stemning og gott andrúmsloft. Þegar maður er svona nálægt söngvaranum þá er eins og hann sé bara kominn inn í stofu. En já sem sagt hrikalega gaman og ég var lengi að ná mér niður, enda ekki til fallegri lög í heiminum en þau sem VV söng i den.

Nú langar mig bara á fleiri tónleika...plíís vill einhver koma á Höfn?

KV, Íris

föstudagur, 22. ágúst 2008

Rhodos, hversdagurinn og glæný frænka!!

Ég við byrja þennan pistil á því að monta mig aðeins, því í morgun eignaðist ég frænku. Hlynur og Hildur eru orðin stoltir foreldrar og ég samgleðst þeim innilega. Mikið hlakka ég til að knúsa hana og finna ilminn af henni....en ungabarnsilmur er besti ilmur í öllum heiminum! 15,5 merkur og 52 cm. Hlynur ætlaði að skella inn myndum á morgun á bloggið sitt, en linkinn sjáiði hér til hliðar.

En eins og dyggir bloggaðdáendur mínir ;) hafa tekið eftir er ég ekkert sérstaklega iðin við það að blogga. Nennti því ekki í fyrstu, síðan setti ég inn svakalegan pistil og fullt af myndum, sem á einhvern óskiljanlegan hátt klúðraðist. Eftir svoleiðis leiðindi er maður lengi að koma sér í gírinn aftur. Síðan þá er búið að vera nóg að gera....en byrjum á Rhodos:
VÁ hvað það var frábær ferð í alla staði. Við hjónin vorum eins og lufsur í hitanum og aðgerðaleysinu. Mikið svakalega var gott að fá sér einn síestublund um miðjan dag, sötra mojito á kvöldin og liggja í sólbaði þess á milli. Við höfðum okkur nú samt af stað í tvær skipulagðar ferðir, annarsvegar um miðborg Rhodos og hinsvegar til smábæjarins Lindos. Í 35 stiga hita (lágmark) gengum við upp 300 tröppur til að berja leifar Aþenuhofsins augum og á toppnum var ekkert venjulega fallegt útsýni yfir Lindos. Hótelið var meiriháttar flott, maturinn góður og loftræstingin, sem er afar nauðsynlegt auðvitað, og fólkið vingjarnlegt. Það eina sem var ekkert sérstaklega vingjarnlegt var verðið....allt genginu að kenna! En þarna hlóðum við batteríin og vorum ansi lengi að koma okkur í 3., 4. og 5. gírinn sem tóku við þegar heim var komið. Á mynd 1 sést brot af þessu glæsilega og girnilega útsýni frá Aþenuhofinu yfir Lindos. Á mynd 2 stend ég við einn innganginn að gamla miðbæ Rhodos sem er svakalega fallegur. Á þeirri þriðj erum við hjónin reddí to go home, sólbrún og sæl, svona eins brún og við hvítingjarnir gátum orðið á einni viku :)








Erum að fara í brúðkaup Hjalta og Guðrúnar á morgun, gaman gaman! Síðan tekur alvara lífsins við á mánudaginn þegar Íris gerist kennslukona í fyrsta sinn...spennandi og mjög svo krefjandi verkefni fyrir höndum. Ætla ekki að skrifa meira í bili, en læt nokkrar myndir frá brúðkaupsdegi okkar fljóta með, teknar af Hlynsa hinum nýbaka föður!! Glæsilegar myndir hjá honum...þúsund þakkir!!




föstudagur, 11. júlí 2008

Hjónin




Hér eru tvær myndir af okkur nýgiftu. Fleiri eru á leiðinni en fyrir þá sem ekki voru á staðnum (og auðvitað líka þá sem voru á staðnum) þá getiði séð hversu gríðarlega myndó við vorum þennan daginn :)
Blómvöndurinn minn var gerður af Tobbu og Mæju móðursystrum mínum og var allt hráefni hans fengið úr guðsgrænni náttúrunni, nánar tiltekið í görðunum hjá Lóu í Hjarðarnesi og tengdamömmu. Mér fannst það alveg frábært að hafa vönd í höndunum sem þær sáu um að útbúa, eitthvað svo persónulegt...og ekki er hann síðri en keyptur vöndur!!! En án þeirra móðursystra, vinkvenna og vina okkar Óskars, mömmu, pabba, tengdaforeldra og systkina þá hefði þessi dagur verið kaos!! Það er bara svo einfalt. Takk takk takk og þúsund kossar til ykkar.
Annars eru stelpurnar loksins að komast í sumarfrí, síðasti dagurinn í leikskólanum er í dag. Það er margt á döfinni, en þó verðum við Óskar eitthvað að vinna, en tökum kannski langar helgar ef veðurspá er góð. Síðan er það Rhodos 26. júlí, en Króatíuferðin var búin að hækka svo gríðarlega mikið að okkur fannst það fásinna að eyða 250 þús krónum í vikuferð. Við erum alveg jafn spennt fyrir Grikklandi og teljum dagana!!
Meira síðar.....
Íris

mánudagur, 30. júní 2008

Ekki lent.....




Nei það eru sko orð með sönnu, við hjónin eru algjörlega í skýjunum ennþá. Brúðkaupsdagurinn var fullkominn í alla staði og rúmlega það. Athöfnin frábær, séra Baldur skemmtilegur, söngurinn æðislegur og Óskar auðvitað laaangmyndarlegastur!!! Djömmuðum til að verða 3.30 og allir í rífandi stuði.
Ástarþakkir til ykkar allra fyrir að fullkomna þennan stóra dag sem við munum aldrei gleyma. Einnig kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar og fallegar gjafir.
Knús og kossar,
frú Arason
p.s. Nokkrar myndir sem teknar voru af honum Hlynsa bró snillingi. Þetta er smá upphitun en ég mun setja inn fleiri þegar þær koma í hús.

þriðjudagur, 24. júní 2008

Fröken Íris kveður

og það verður FRÚ Íris sem mun skrifa næsta pistil. Mér finnst það að vera FRÚ hljóma eitthvað svo gamaldags, eins og ég sé orðin sjötug. En nú taka við miklar annir í sambandi við stóra daginn og því má ég ekkert vera að þessum skrifum og kveð ykkur að sinni.
Bestu kveðjur frá frökeninni :-)

föstudagur, 13. júní 2008

Allt mögulegt....

Jájá, tíminn heldur áfram að fljúga áfram á methraða. Ég er enganveginn að skilja að ég sé að fara að gifta mig eftir 2 vikur, ómæ ómæ! Nú er búið að leggja inn STÓRA pöntun í ÁTVR sem vonandi mun duga gestum eitthvað frameftir nóttu og sjá til þess að það verði mikið húllumhæ og trallala. Einnig er góður maður á staðnum búinn að láta okkur fá trilljón lög sem við Óskar verðum að drífa okkur í að skoða og velja úr þau lög sem við teljum að muni halda uppi stuðinu (í bland við vökvann úr ÁTVR:). Og að sjálfsögðu verða nokkur velútvalin "bömp" lög, en þeir sem hafa einhvern tímann verið í partýi með fólki úr minni familíu vita hversu margir eru bömpóðir, að ógleymdum og sérpöntuðum ABBA og Pointer Sisters lögum....... en þeir sem ekki fýla þessháttar tónlist verða bara að gjöra svo vel að drekka meira og drífa sig í tjúttstuðið! Annars verða þeir bara dregnir útá gólfið af mömmu og öllum hinum ABBA -lýðnum. Í okkar brúðkaupi er skylda að skemmta sér vel og leeeengi. Einhvernveginn hef ég ótrúlega litlar, sem engar, áhyggjur af því að fólki mun leiðast, því allir þeir sem verða í Mánagarði þann 28. júní n.k. eru bara lífsglaðir og skemmtilegir einstaklingar.
En talandi um allt þetta áfengi þá er ég ótrúlega léleg þegar kemur að því að drekka vín. Hann Óskar minn fer bráðum að hafa áhyggjur af þessu, bindindismaðurinn sjálfur! Hvar annarsstaðar en heima hjá mér rennur áfengið út!!??? Ég keypti 2 kippur af julebryg öli í fríhöfninni þegar við mamma fórum til Köben í lok október s.l. Ég var búin að steingleyma þeim þar til áðan...ákvað að skella einum í kæli og var þá litið á dagsetninguna...rann út í febrúar! Þetta gengur auðvitað ekki. Opnaði eina hvítvín um síðustu helgi fyrir okkur Hlynsa bró og hún er enn ókláruð inni í kæli, viku seinna..... ég bæti úr þessu í Króatíu, engin spurning.
En yfir í allt annað, eiginlega framhaldssöguna um hana Elínu mína og eyrun hennar, en margir hafa fylgst með spennandi og ansi reglulegum lýsingum af veikindum hennar frá því 4. janúar á þessu ári ;) Þessi elska er aldeilis ekki búin að fá pensillín skammtinn fyrir árið...ónei, komin með sýkingu í vinstra eyrað og beint á uppáhaldsmeðalið sitt Kåvepenin. Vona að þetta sé endanlegur endir í þessari spennandi seríu...
Annar og mun alvarlegri hlutur átti sér stað í gær þegar tengdapabbi slasaði sig við vinnu sína og missti fingur, vísifingur hægri handar. Þetta var auðvitað mikið sjokk en hann er bara brattur kallinn og þakklátur fyrir að ekki fór enn ver.

Já það er s.s. allt að gerast hér, gott og miður gott, en allir eru fullir bjartsýni og hrikalega jákvæðir!!!
Kveðja....Íris ofurspennta!

fimmtudagur, 5. júní 2008

Spennandi tímar framundan..

Já nú er bjart yfir öllu, annað en í þegar síðasti pistill var ritaður :) Við erum farin að hlakka ótrúlega mikið til stóra dagsins sem nálgast óðfluga. Ég á erfitt með að trúa því að það sé að koma að þessu, það hefur alltaf verið svo langt þangað til...nema núna. Ég skrapp í prufugreiðslu til Ellýjar í fyrradag og lukkaðist það allt saman vel, enda höfðum við nákvæmlega það sama í huga. Óskar fékk fyrirmæli um að safna hári fram að brúðkaupi svo möguleikarnir á nýju lúkki verði meiri...hehe..hann er orðinn ansi lummó núna, ekki annað hægt að segja um það. Það eina sem mig vantar eru nærföt og þau réttu fæ ég ekki hér á staðnum, ég bara nenni ekki að fara alla leið til RVK til þess eins að kaupa nærföt...en ég veit ekki hvernig ég leysi þetta mál öðruvísi.

Annars er ég að vinna í Nettó, sem er bara fínt. Þar er alltfa nóg að gera og maður nær aldrei að klára allt það sem maður hefði viljað ná að gera þann daginn. Tíminn er líka merkilega fljótur að líða, sem er auðvitað mikill kostur því hangs á ekki við mig. Ég verða að vinna þar til stelpurnar fara í sumarfrí, um miðjan júlí. Stefnt er að því að skreppa í nokkrar útilegur með hjólhýsið þeirra mö og pa, en það verður a.m.k. farið norður til Bjarka og Co, annars verður reynt að elta góða veðrið sem verður vonandi til staðar.

Síðustu tvo daga hef ég verið uppí skóla að undirbúa næsta skólaár og þá aðallega dönskuna. Ég mun s.s. kenna 8. bekkingum íslensku og dönsku, ásamt því að kenna örum bekknum lífsleikni, sá bekkur verður umsjónarbekkurinn minn. Þetta er 92 % stöðuhlutfall og fyrir óreynda manneskju eins og mig verður þetta án efa meira en nóg ásamt náminu auðvitað. Ég er búin að fá allt námsefnið heim og stefni á að rifja upp hin ýmsu hugtök og heiti sem við koma íslenskri málfræði, en hana lærði ég eiginlega aldrei þar sem hún er að mestu kennd í gaggó og þá bjó ég í DK. En þetta er þarna einhversstaðar deep down under og þá er bara að draga þetta upp úr viskubrunninum. Þetta verður allt saman mjög gaman og ég hlakka mikið til.

Aðlögunin hjá henni Elínu minni er öll að koma, hún vælir slatta þegar við kveðjumst á morgnana en það stendur sem betur fer stutt yfir. Þær systur eru í leikskólanum frá 8-15 í sumar en neyðast til að vera til 16 þegar ég fer að vinna í haust. Þetta er ansi langur dagur finnst mér fyrir litlar manneskjur, en svona er bara Ísland í dag og peningarnir vaxa ekki á trjánum, því er nú ver.

Það er s.s. spenna og tilhlökkun í loftinu hér á Mánabrautinni....JEIJ!!
KV, Íris

miðvikudagur, 21. maí 2008

Nöldur

Það ætti að seinka þessum blessaða fyrsta sumardegi. Í dag er skííítakuldi! Það er reyndar þannig með veðrið á þessu skeri að allt í einu er bongóblíða (á íslenskan mælikvarða) en svo tveimur dögum seinna er slydda eða snjókoma, frost og kuldi. Ég vildi að sumrin hérna væru a.m.k. eins og dönsk sumur, það væri mikill kostur og þá þyrfti maður ekki alltaf að vera með stöðuga útþrá í sól og hita. Þá gætu Íslendingar líka hætt að eyða svona gígantískum upphæðum í sólarlandaferðir og reynt að slaka aðeins á heima hjá sér í staðinn.
En nóg um það, þetta mun víst ekki breytast þó ég tuði um þetta endalaust..................
Ég er með Elínu Ósk í aðlögun í leikskólanum sem gengur því ver og miður ekki alveg eftir bókinni (reyndar er engin slík bók til um hina fullkomnu aðlögun, en þið vitið hvað ég á við:). Hún er líka svo lítil greyið og ef ég hefði fengið einhverju ráðið þá hefði ég viljað byrja með hana í leikskólanum í ágúst, eftir sumarfrí og haft hana hjá Birnu dagmömmu aðeins lengur. Planið var að byrja að vinna hjá pabba í Nettó strax eftir prófin, en aðlögunin ásamt magapest sem ég ætla ekki að losna við koma í veg fyrir það. Það er alltaf eitthvað!!! Kannist þið við svona? Um leið og maður er með eitthvað fullkomið plan, þá gerist eitthvað.... ælupest, niðurgangur, eyrnabólga eða bara eitthvað...óþolandi!
Þetta er nú meira tuðið í manni, en svona eru sumir dagar einfaldlega. Ég er reyndar hæst ánægð með prófin mín, búin að fá flottar einkunnir og ætti því auðvitað að vera glöð og kát. Hvernig væri að hætta núna og skrifa aftur seinna þegar ég er komin úr tuðgírnum...gáfulegt:)
Over and out...

sunnudagur, 11. maí 2008

Dagur í lífi Ungfrú Nettó 2008!!!!

Já það var heint út sagt ótrúleg tilviljun að ég skuli hafa verið að tjá mig í bloggpistli gærdagsins um væntanlega gæsun, því ekki meira en 2 tímum síðar fór allt að gerast......
Um 2 leytið var ég sofandi sökum magapínu sem hefur verið að hrjá mig undanfarna daga og var vakin af Óskari sem sagði mér að löggan væri komin og vildi tala við mig...what??!!! Ég fer niður í forstofuna og þar standa Gæji lögga og hin löggan sem ég man ekki hvað heitir..hehe..þeir spyrja mig hvort ég hafi verið á subarunum í gær í miðbænum.....já.....það getur verið. "Já það sást til þín þar sem þú rakst utan í einn bíl og fórst svo bara..." - "HA?? Nei þetta er e-ð rugl" - "Jú það er búið að leggja fram kæru" - "Nei nei djöfulsins vitleysa......GUÐ....eru þær að fara að gæsa mig núna, ég trúi þessu ekki?" - "Nú ertu að fara að gifta þig?" - "Já" - "Komdu með okkur út það sést aðeins á bílnum þínum" - "Jájá...allt í lagi.....vá bara með ljósin á og allt" - Þá er mér afhent umslag þar sem m.a. stóð að ég ætti að kalla á þessar svokölluðu vinkonur mínar :) Ég fékk lánað "kallkerfi" löggunnar og sagði þeim að drulla sér til mín. Kemur þá ekki pallbíll með 7 gæsavinkonum innanborðs, sem sáu til þess að til þeirra heyrðist a.m.k. til Djúpavogar, þvílíkir lúðrar og flautur, blöðrum skreyttur bíll og það sem toppaði þetta voru stækkaðar myndir af mér frá því fyrir hundrað árum síðan, s.s. fermingarmyndir og kórónumyndir. Þær náðu mér gjörsamlega og þó ég hafi hugsað þetta og sagt við löggurnar að nú væri verið að fara að gæsa mig, þá trúði ég því einhvern veginn ekki.
Eftir nokkra sopa af áfengi lagaðist maginn (jeij!!) og mér skipað að klæðast furðufötum (reyndar fötum af Ibbu sys, en fyrir mér eru sum þeirra mjög svo furðuleg). Andlitið á mér var eins og diskókúla svo mikið glimmer og glans að það hálfa væri nóg og svo má ekki gleyma aðalatriðinu, eldeldeldrauðri hárkollu. Ég var hreint út sagt "drop dead gorgeus"...... Svo má ekki gleyma borðanum fallega, en ég var krýnd Ungfrú Nettó :):)
En gæsin fékk ekki far, heldur þurfti hún að labba niður á mjólkurstöð og finna þar bjór til þess að fá næstu vísbendingu og sæti á pallbílnum góða. Þá var haldið upp í Hafnarskóla þar sem við lékum okkur í aparólu og fleiri tækjum sem sáu til þess að fleiri en ég fengu magapínu þennan daginn :) Svo var farið niðrá bryggju þar sem ég þefaði upp tvo unga herramenn sem sigldu með okkur á gúmmíbát út í Mikley. Þar átum við og drukkum og skemmtum okkur vel. Við fengum meira að segja frábært skemmtiatriði á leiðinni, en hann Emil tók atriði úr Rocky horror show og var hrikalega flottur!! Síðan var komið að ansi merkum dagskrárlið. Ég var látin klæðast blautbúningi og þurfti að liggja á einhverjum uppblásnum belg og ríghalda mér því "I was going for a ride"!!! Já, ég hélt ég myndi deyja úr hræðslu, en svo var þetta alveg frábært og auðvitað stóð ég mig eins og hetja. Anna Marín og Kolla mynduðu herlegheitin og dóu úr hlátri....a.m.k. pissuðu þær á sig:)

Svo var farið á Jöklasetrið þar sem ég reyndi að halda fyrirlestur um Vatnajökul, en ég get ekki sagt að það sé mín sérgrein. Svo var bundið fyrir augun á mér og allt í einu er ég stödd í æfingahúsnæði hinnar margumrómuðu hljómsveitar Parket. Þar beið mín heldur betur tækifæri til að slá í gegn og ég efast ekki um það að ég geti leyst Pál Óskar af hvenær sem er. Þetta var hrikaleg gaman og við hlógum okkur máttlausar yfir mestu tilþrifunum..... en hey, maður gerir allt fyrir ástina!
Eftir stutt stopp hjá hjónunum á Lækjarbrekku tók við kærkomin afslöppun í heitum pottum í Hoffelli(held ég) í fínasta veðri. Að lokum var brunað upp í Lón, í bústað KASK, Arasel og þar var grillið tekið fram og singstar!!
Í dag er heilsan nokkuð góð miðað við aðstæður :):) Það eru ár og aldir síðan að ég skemmti mér svona vel og í svona frábærum hópi vinkvenna. Dagskráin var pottþétt og allt saman rosalega skemmtilegt, og það besta er að ég er ekki með móral...hehe
Ég vil þakka yndislegum vinkonum mínum, frænkum og systur, þeim Kollu, Önnu Marín, Sonju, Hildi, Guðrúnu, Höllu Katrínu, Möttu og Ibbu kærlega fyrir mjög skemmtilegan dag, fullan af óvæntum dagskrárliðum sem var hver öðrum skemmtilegri, haug af áfengi og góðum mat. Og auðvitað þakka ég líka öllum hinum vinkonum mínum sem því miður gátu ekki verið með okkur fyrir að vera samt með okkur í huganum :):) Mamma fær líka stóran koss................
Ástarþakkir.........þið eruð BESTAR!!
Gæsin


laugardagur, 10. maí 2008

Hin eina sanna Íris snýr aftur..

Já það eru eingöngu afar jákvæð lýsingarorð sem lýsa líðan minni yfir því að vera búin með skólan að sinni. Tók þessi þrjú próf í vikunni sem gengu stórvel. Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann verið svona hrikalega ánægð með að klára eina önn, enda finnst mér eins og hafi ekki gert annað frá áramótum en að sitja á rassgatinu og lært. Jú annað slagið komu upp veikindi sem "krydduðu" aðeins upp á hversdaginn, en nú eru bara bjartir dagar framundan.
Nú eru það önnur og ekki síður mikilvæg verkefni sem taka við eins og brúðkaupið, sandkassasmíði (sem þegar er hafin), aðlögun Elínar í leikskólanum og svo vinna hjá pabba í Nettó. Þar er alltaf brjálað að gera, svo að ég geri ráð fyrir að tíminn fram að brúðkaupi og sumarfríi okkar fjölskyldunnar verði mjög fljótur að líða. Síðan er það Króatíuferðin sem er enn eitt tilhlökkunarefnið auðvitað. Gott að dreifa þessu svona jafnt yfir sumarfríið, alltaf eitthvað skemmtilegt sem bíður manns.
Já og svo slepp ég líklega ekki við gæsun, allavega hafa skvísurnar verið að funda stíft undanfarið. Þetta er svo sem ekkert sem ég vil missa af og hlakka ég ótrúlega til að skála í góðra vinkvenna hópi og skemmta mér fram á morgun. Jíííhaaa!:) Svo lengi sem ég þarf ekki að klæða mig upp sem einhver gleðikona og syngja útí búð, standa á höndum eða framkvæma aðrar eins kúnstir sem eingöngu stuðla að vanlíðan minni og móral næsta árið. Ég myndi alveg þora, en bara ef ég væri stödd á stað þar sem öruggt væri að enginn vissi hver ég væri. Stundum finnst mér gæsanir og steggjanir fara út í öfgar og vitleysishátt, sem ég skil bara ekki. Fatta ekki tilganginn! En það er nú efni í heilan pistil.....
Vegna þess hve hrikalega bissí og leiðinleg vinkona ég hef verið sökum anna í helv...náminu, þá vil ég auglýsa það að húsfreyjan á Mánabraut 2 er nú mjög spennt fyrir öllum matarboðum og kaffiboðum og heitapottshvítvínsboðum og hvaða boðum sem er...ég þarf ekki að læra :):) Og bið alla þá sem ennþá vilja þekkja mig að reka inn trýnið og kíkja í kaffisopa. The house is OPEN!
Yfir til ykkar...
Íris




miðvikudagur, 30. apríl 2008

Konan & gelgjan 2008

Það er með eindæmum hvað tíminn flýgur, sérstaklega núna þegar maður er orðinn svona "gamall" og hversdagurinn yfirfullur af verkefnum. Allt í einu er Dagmar Lilja á fimmta ári, litla sæta stelpan mín að fara í skóla á næsta ári. Þó hún sé bara 4 ára þá finnst mér á stundum ég vera með ungling. Þegar hún fær ekki það sem hún vill þá tekur hún gelgjukast og hótar manni öllu illu, s.s. : Þá færð þú ekki að koma í herbergið mitt! Þá mátt þú ekki koma í afmælið mitt! Þá lem ég þig fast í hausinn! og fleiri skemmtilegar athugasemdir um útlit mitt....: Þú ert ógeðsleg! Þú ert með ljótt hár! Þetta er ógeðslegt hús! og svona mætti lengi telja. Orðið "ógeðslegt" er ótrúlega vinsælt, sama hvort e-ð er ógeðslega flott eða ógeðslega ljótt.
Ég hélt að litlar 4 ára stelpur væru ekki mikið að spá í útlitinu.....I was wrong! Þó hún Dagmar mín sé oft að dressa sig upp, syngja og dást að sjálfri sér fyrir framan spegilinn þegar hún leikur frægar söngkonur, þá á hún það til að kritisera eigið útlit. Um daginn sagðist hún ekki ætla að vera með freknur þegar hún verður 5 ára. "Nú, ég er með freknur og það er bara mjög flott að vera með freknur", segi ég svona til hughreystingar. "Nei, það er ógeðslegt!" Hver er að spá í freknur á þessum aldri? Eiga börnin ekki bara að vera að leika sér og vera ligeglad um allt annað! Svo eru það áhrifin úr umhverfi barnanna sem upp á síðkastið hafa sýnt sig að vera töluverð, t.d. auglýsingar. Dagmar spurði mig um daginn hvort ég ætlaði ekki að fá mér svona krem fyrir brúðkaupið svo ég fengi svona sléttan háls?#!"#$"%#$%# Bíddu...er ég ekki með sléttan háls? Þarf að tékka á þessu. Reyndar hefur hún ekki talað um lengi að hún sé feit hér og þar....mikill léttir!
Svona er þetta nú stórmerkilegt. Kannski er þetta bara eðlilegt, sérstaklega hjá stelpum.....en 4 ára......come on!
Reyndar er hún Dagmar mjög skýr og er fljót að tileinka sér ýmislegt sem hún heyrir og sér. Ef hún fengi að ráða þá væri Popp-tv á allan daginn, því hún dáir alla þessa listamenn og tónlist, en verst hve margir þeirra eru fáklæddir og dansarnir glyðrulegir. Langar ekkert sérstaklega að Dagmar fái þá hugmynd í kollinn að bert hold og titrandi rasskinnadans og glennuskapur sé eftirsóknarvert. Mikið er leiðinlegt að sjá hvernig ímynd konunnar birtist okkur víða. Annað hvort eigum við að versla krem í tonnatali til þess að þroski okkar sjáist örugglega ekki, eða þá að vera fáklæddar og grindhoraðar. Þá kýs ég frekar þá ímynd sem var hvað mest áberandi upp úr miðri síðustu öld: heimavinnandi húsmóðir, með svuntu, kökukeflið í annarri, krakkann á mjöðminni og ryksuguna í hinni, brosandi glöð og hamingjusöm og allt tandurhreint og fínt!
Og hana nú...
Íris

sunnudagur, 20. apríl 2008

Fjórhjól og freknur

Undanfarnir dagar hafa verið hreint frábærir í alla staði. Síðasta föstudag fórum við Elín til RVK og fengum sett í hana rör og nefkirtlar teknir. Flugið og aðgerðin gengu eins vel og hægt er að óska sér. Hún var ægilega reið þegar hún vaknaði af svæfingunni, en jafnaði sig um leið og við fórum út af læknastofunni. Þar inni voru allir í grænum skurðlæknafatnaði sem henni leist ekkert á og vildi komast út hið snarasta. Í gær var hún svakalega brött og var úti að leika í blíðunni allan daginn með Dagmar Lilju, systrunum í þarnæsta húsi og okkur Óskari. Það er nú meira hvað gott veður hefur mikið að segja. Við drifum okkur út í garð og tókum hann aðeins í gegn, eigum reyndar eftir að klippa tréin aðeins. Þær systur fengu fullan kassa af útileikföngum og garðslönguna, og þá var allt í himnalagi -hægt að drullumalla og skíta sig út...það er bara gaman. Ætlun að finna einhvern kofa handa þeim þar sem þær geta drullumallað að vild, það gefst líklega ekki tími til að smíða einn eins og útlitið er núna, annað sem þarf að huga að. Síðan var grillið þrifið og borgurum skellt á sem voru snæddir með bestu lyst. Þannig að gærdagurinn kom okkur í sumargírinn sem er síður en svo leiðinlegur gír að vera í!
Í dag virðist veðrið ekki ætla að svíkja okkur. Byrjuðum á því að fá okkur morgungöngu til Ara og Inguló og fengum okkur snarl. Pabbi var að kaupa fjórhjól þannig að Óskar og Dagmar drifu sig þangað á meðan Elín leggur sig. Veit samt ekki hvort þeirra er spenntari...held Óskar :)
Vona að sólin skíni á ykkar bæ!!
Kv, Íris með fullt af nýjum freknum

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Endaspretturinn og fallega fólkið

Þá erum við "hjónin 2B" komin úr langþráðri borgarferð. Reyndar fannst okkur þessir dagar allt of fljótir að líða, en þetta var samt sem áður mjög kærkomið frí án barna :) Við keyptum hringana, servíettur, blöðrur, kertastjaka, völdum matarstell og hnífapör, fundum frábær kjólföt á Óskar frá 1950, sem tveir úr minni famílíu giftu sig í og ýmislegt annað. Við náðum að gera allt það sem við þurftum að klára að þessu sinni. Svo er líka búið að ráða söngvara og velja lögin, en tónlistin skiptir okkur MJÖG miklu máli. Þannig að núna er nettur fiðringur kominn í okkur og tilhlökkun! Ömmur og afar pössuðu systurnar og það gekk eins og í sögu. Reyndar var Elín e-ð slöpp sem reyndist svo vera eyrnabólga nr. 4 á þessu ári. Nú vonum við að þessi blessaði eyrnalæknir fari að hrigja í okkur, því rör eru það sem barnið þarf á að halda sem fyrst.

Það er svo merkilegt með kennara hvað þeir virðast vera verkefnaglaðir á leiðinlegum tímum, t.d. rétt fyrir annarlok og próf. Ég fer í próf 5 +6 +8 maí og alveg hellingur af verkefnum eftir. Lokaskil síðasta verkefnisins er t.d. 9. maí, eftir próf!! Nei takk....nú er bara að spýta í lófa og klára þetta helv.... Ég held ég muni aldrei verða eins fegin og þegar þessari önn lýkur.

Stöð 2 er búin að vera ólæst þessa vikuna, líklega vantar þá fleiri áskrifendur og eru að reyna að lokka þá með þessum hætti. Sá að það er ennþá verið að sýna "Bold and the Beautiful". Ó mæ god! Ég var húkt á þessum þáttum fyrir......17 árum síðan þegar ég bjó í DK, þar heita þættirnir "Glamour". En áðan sá ég s.s. byrjunina (ca 15 sek) og þar er hann Ridge að væla yfir því að einhver Nick (minnir mig) geti ekki gert hana Brook eins hamingjusama og hann sjálfur gæti. Bíddu....hversu oft er Ridge búinn að vera giftur Brook? Er hann skilinn við dökkhærðu gelluna? Er Brook kannski gift pabba Ridge, eða bróður hans? Eða er dökkhærða fyrrverandi eiginkona Ridge gift pabba hans? Úff...hver nennir að horfa á þetta? Fékk minn skammt fyrir 17 árum síðan.

Nóg í bili.
Íris

fimmtudagur, 27. mars 2008

Harkan!

Þá er páskafríi lokið. Það var alveg æðislegt að fá Bjarka, Erlu og krakkana í heimsókn, og þetta var eitt besta fríið í langan tíma. Ég lærði ekkert, sem var alveg frábært fyrir geðheilsuna, fyrir utan það að lesa eina danska bók sem ég þarf að skrifa um síðar í mánuðinum. Bókin heitir Colorado Drömme, og er ástarsaga uppá rúmar 300 bls. En það er bara gaman og góð tilbreyting frá hinum hefðbundnu námsbókum.
Páskafríið einkenndist af áti og meira áti, smá djammi, en annars bara rólegheitum. Það voru allir við hestaheilsu sem betur fer og því var m.a. skroppið í fjöruferð í nístingskulda. Dagmar var ægilega ánægð að sjá Arnór frænda, og þrátt fyrir að hann sé nú 4 árum eldri en hún og orðinn svaka töffari með eyrnalokk, þá kom þeim bara ótrúlega vel saman. Hann má nú eiga það þessi elska að hann hefur alltaf verið einstaklega barngóður, og þegar við bjuggum öll í Hraunbænum þá lét hann það ekkert á sig fá að hafa litlu frænku í eftirdragi þegar vinirnir voru úti að leika.
En þar sem tíminn vægast sagt flýgur áfram og ég áttaði mig á því að það eru aðeins 3 mánuðir í brúðkaup, þá var keypt kort í líkamræktarstöðina hér á staðnum. Við Óskar hittumst í ræktinni í hádeginu 3-4x í viku og "work our assess off" hehe... Nú er það bara harkan og ekkert annað. Það er alltaf jafn erfitt að koma sér af stað, bara fara á staðinn, en um leið og ég byrja finnst mér þetta alltaf jafn gott og skemmtilegt. Þetta finnst mér æðislegur lúxus að geta hist í hádeginu og púlað saman. Blakið er auðvitað á sínum stað, alltaf á mánudögum, enda um að gera að hafa tilbreytingu í þessu.
Það styttist í helgarferð okkar "hjóna" til RVK. Ætlum að bruna eftir viku og vera frá fimmtudegi til sunnudags, ÁN barna. Það er reyndar nóg á dagskránni því það þarf að kaupa hringa, borðskraut, athuga með blóm og brúðarvöndinn, kaupa föt á stelpurnar, athuga með föt á Óskar o.s.frv. Við erum búin að bóka verkalýðsíbúð í borginni, þar sem við ætlum að sofa vel og lengi! Svo er ekki verra að vera boðið í mat til vina og vandamanna öll kvöld. Þetta verður fjör!!
Later.........Íris

þriðjudagur, 18. mars 2008

Ahhhhhh......

Já, mér fannst eins og það væri verið að pressa aðeins á mann þarna í Ameríkunni og ákvað að drífa í að skella einhverjum orðum á "blað."

Mér líður núna eins og titillinn á að lýsa, svona vellíðunarafslöppunareftirmikiðálagstunur! Nú er það bara páskafríið framundan í faðmi fjölskyldunnar og fjarri námsbókum eins og ég mögulega kemst upp með. Komst loksins í það í dag að þrífa svínastíuna sem á að kallast heimili. Óskar hafði orð á því í gærkveldi að við gætum farið að maila á þær á Skjá1, sem sjá um "Allt í drasli" þáttinn. Það versta var að ég hafði verið að hugsa það sama. En auðvitað kom það alls ekki til greina, svo ég skellti bara honum Palla vini mínum í spilarann í dag, svona 3-4x, og "blingbling." Það er nú meira hvað manni líður vel þegar allt er tandurhreint og fínt. Ég á ekki langt að sækja þrifæðið, ef það mætti kalla það svo. Á erfitt með að einbeita mér og framkvæma hlutina ef það er drasl eða skítugt í kringum mig. Get ekki einu sinni borðað ef það er ekki fínt!
Þetta var fínasta líkamsrækt, því það tekur á að þrífa 170 fm!

Er byrjuð í blaki, by the way. Hef farið síðustu þrjú mánudagskvöld og skemmti mér konunglega, þrátt fyrir marbletti og eymsli hér að þar. Þó ég sé nú enginn "smassari" né mikill keppnismaður þá er félagsskapurinn einn þess virði að mæta. Frábær tilbreyting og slæ tvær flugur í einu höggi, s.s. hreyfing og félagsskapur. Held þessu pottþétt áfram!
Ég vona að þið öll hafið það náðugt um páskana, og fáið íslenskt páskaegg hvar sem þið nú eruð stödd í þessum heimi. Það er möst!!
Later....Íris

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Ég elska.....

útsýnið mitt. Þegar við fluttum í stóra og fína húsið okkar þá var ég með það alveg á hreinu hvar tölvuherbergið ætti að vera, nefnilega þar sem útsýnið er hvað best! Þegar maður situr á afturendanum svona flesta virka daga frá 9-3 þá skiptir þetta svo gífurlega miklu máli. Útsýnið gefur manni svo mikinn innblástur þegar heilinn er dofinn, sem á það til að gerast...believe you me. Útsýnið er sjaldan betra en einmitt á svona dögum eins og í dag. Smá frost, logn, heiðskírt, sólskin og allt hvítt...fjalla- og jöklasýnin er ólýsanleg...en mig langar samt alltaf í aðeins meira. Vildi að ég gæti fært húsið mitt nær golfvellinum svo ég hefði panoramaview. Spurning hvort golfáhugamenn myndu ekki sýna mér skilning og færa braut 1 eða 2, nú eða bara golfskálann? Einfaldast væri kannski bara að taka smá ofan af hólnum sem blokkerar útsýnið....
En yfir í allt annað. Nú styttist í að verðandi kennarinn þurfi að fara að æfa sig í kennslu 7 ára barna. Ég er búin að liggja yfir gerð kennsluáætlana með stöllu minni úr KHÍ og get ekki beðið eftir að þeirri vinnu ljúki...sem mætti gjarnan verða í kvöld!! Þá fara næstu tvær vikurnar í það að fræða blessuð börnin um íslenskar þjóðsögur og Kötlugos, svo e-ð sé nefnt...eins gott að kynna sér málin áður. Þetta verður kærkomin tilbreyting frá kyrrsetunni og einverunni hérna heima og verður ábyggilega líf og fjör!! Svo mun bara koma í ljós hvort mér takist að vekja áhuga þeirra...vil helst ekki að þau fari heim og kvarti yfir "nýja" kennaranum, eða "starfsmanni í þjálfun" eins og ein í bekknum kallaði mig alltaf í áheyrninni :)
Annars er Elín mín bara brött, enda enn að taka inn meðalið sitt.... en við bíðum bara eftir að sérfræðingurinn bjalli í okkur og kalli hana í rör. Annars væri það alveg eftir bókinni að hún fengi aftur í eyrum um páskana, en þá eru allir sjúkdómar BANNAÐIR og öll veikindi BÖNNUÐ. Við fáum nefnilega Bjarka bró, Erlu, Arnór og Önnu í heimsókn, og við nennum engu veikindastússi..og hana nú!!

Hafið það gott ..... kv, sveitapían með góða útsýnið

laugardagur, 23. febrúar 2008

Allt í plati!

Já, bælið lifnaði við en bara í smá tíma...oooooooohhhhhhhhh. Elsku litla Elín mín komin með í eyrun AFTUR og að þessu sinni er hljóðhimnan í öðru eyranu sprungin en mikil bólga í hinu. Það er svo merkilegt að þessi veikindi undanfarið hafa alltaf blossað upp á nóttunni og um helgar. En núna er heimsókn á heilsugæsluna lokið og hún s.s. komin á pensillínskammt nr. 4 og tegund nr. 4, ekki gott :( Vonumst til að fá tíma hjá sérfræðingi í vikunni og fá í framhaldinu tíma fyrir barnið í röraísetningu, annað er ekki hægt í þessari stöðu.
Ég ætlaði að skreppa í borgina á mánudainn og vera fram á föstudag vegna staðlotu í skólanum, en það verður ekkert úr þeirri ferð því miður. Hefði þurft að klára stærsta verkefni annarinnar um helgina með stöllu minni hér á Höfn, en það mun að öllum líkindum ekki takast vegna veikindanna og því þarf ég að blása ferðina af og vinna í verkefninu í vikunni.
En annars er allt gott af öllum öðrum í familíunni og hún Dagmar mín skrapp á ístöltmót á Eiðum með ömmu Ellu og afa Pálma. Ég hugsa um það oft á dag hvað það er yndislegt að hafa ömmurnar og afana svona nálægt okkur, og ég segi nú bara alveg eins og er, að ef ömmurnar væru ekki á staðnum þá væri ég í mjög DJÚPUM SK.. í náminu. Ég er þeim innilega þakklát og vona að þær viti það nú þegar.
Jæja ég held ég bulli ekki meira í bil og fari að sofa eftir 29 tíma vakt!
ZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz.......................

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Bælið er að lifna við :)

Mikið lifandi skelfingar ósköp er ég fegin því að heilsa dætra minna sé komin í lag 7-9-13. Nú er lífið farið að taka aftur á sig hina hversdagslegu mynd, allir í sinni vinnu, kátir og glaðir eins og það á að vera. Nú þarf ég að taka mig á í lærdómnum og vinna upp það sem ekki gafst tími fyrir að framkvæma, en það er pís of keik.
Nú erum við skötuhjúin farin að hugsa um allt aðra hluti en veikindi, nefnilega brúðkaupið og ýmislegt sem því viðkemur. Nú er farið að vinna í boðskortum, erum með mjög áreiðanlegan starfskraft sem sér um þau mál, hana Helgu Dís:) Nú bíðum við spennt eftir útkomunni. Svo er það brúðkaupsferðin sem á hug okkar þessa dagana, en fyrirhugað er að við TVÖ skreppum í viku til Króatíu þar sem við ætlum að dekra við okkur á góðu hóteli. Það skal tekið fram að við hótelleitina reyni ég að sigta út það hótel sem minnstar líkur eru á að sé yfirfullt af börnum...jámm ég viðurkenni það hér með! Svona er maður nú sjálfselskur :) Það er s.s. planið að fara í viku í byrjun Ágúst. Ef eitthvert ykkar sem les þetta hefur upplifað norðuhluta Króatíu, þá má hinn sami gjarnan deila þeirri reynslu með okkur.
Svo er planið að fara að hrista af sér spikið, því nóg er í boði í sveitinni. Ég gæti t.d. skroppið í blak, sundleikfimi, konu"fimleika" nú eða í ræktina og tíma hjá Kollu. Reyndar er badmintonið á óhentugum tíma, en það finnst mér skemmtileg íþrótt.
Nú jæja, ekki var það fleira að sinni.
Yfir til ykkar...Íris

laugardagur, 2. febrúar 2008

Nýtt lögheimili: Heilsugæslan

Já það er ekkert lát á veikindum á þessum bæ frekar en fyrri daginn. Þessi janúarmánuður er búinn að vera alveg ótrúlegur. Elín mín byrjaði á því að fá hálsbólgu þann 4. janúar á afmælisdaginn sinn og í framhaldinu háan hita, farið var á heilsugæsluna og henni gefin sýklalyf. Litla greyið lagaðist nú lítið sem ekkert, var með svo mikla hálsbólgu að það mætti líkja við rödd 70 ára kellingar sem hefði drukkið 1 lítra af viský á dag frá fæðingu (svona cirka:). Ekki lagaðist þetta, hún borðaði kannski eina krukkumauk á heilum 5 dögum (og nú er ég ekki að ýkja). Litlu sætu lærakeppirnir voru farnir að láta á sjá, fyllingin að hverfa. Ákveðið var að fara aftur uppá heilsugæslu, niðurstaðan var vírus. Ekkert hægt að gera nema að stíla hana reglulega og vona að vírusinn fari fljótt. Eftir 10 daga veikindi var mín orðin frísk, sem kom sér vel því ég þurfti að fara í staðlotu til RVK, tók Dagmar með mér. Við mæðgurnar skemmtum okkur konunglega, fórum í leikhús að sjá Gosa, og hittum vini og ættingja sem maður sér allt of sjaldan, sem sagt svaka gaman. Við Dagmar komum heim á föstudegi og þar bíður Elín litla eftir okkur...lasin! Hringjum uppá Heilsó, niðurstaða annar vírus en ekki eins skæður, ætti að taka 3-5 daga, algengt að fá eftir fyrri veikindin. OK! Jæja, Elín mín varð hress á fimmta degi og gat skroppið til Birnu dagmömmu í nokkur skipti, henni til mjög mikillar ánægju. Greyið litla var farið að toga í útigallan sinn og barnavagninn í forstofunni og BIÐJA um að komast út. Ekki entist þetta nú lengi, því nokkrum dögum síðar var hún orðin slöpp...NEIIIII!!! Fór með hana uppá Heilsó, niðurstaðan, eyrnabólga og þ.a.l. sýklalyf again. Kvöldið eftir vaknar Dagmar Lilja upp með látum og kvartar yfir því að finna til í eyrunum. Fór með hana uppá Heilsó, niðurstaða eyrnabólga! Eyrnabólgusysturnar kláruðu sýklalyfjaskammtana sína í fyrradag og Elín búin að vera svaka spræk en ennþá svona hás...vona að það lagist fljótt. Í gær var Elín komin með hita, nefrennsli og hósta, öll einkenni eyrnabólgu....eigum tíma á mánudagsmorgunn. Dagmar Lilja aftur á móti finnur ekki lengur til í eyrunum, en nú vill hún alls ekki pissa því það er svo sárt. Hún grét á klóinu í dag og kvöld og orgaði af sársauka. Líklega blöðrubólga...hittum lækninn á morgun, vonandi með þvagsýni, ef hún fæst til að pissa.......greyin!!!
Vona að þessi mikli mánuður veikinda og sýklalyfja verði ekki öllu lengur en "bara" mánuður...fer samt að skríða inn í mánuð nr.2.
Ekki hressandi pistill að þessu sinni, en svona er nú bara Ísland í dag!
GEISP....Íris

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Eitt & annað.....

Það er ekki hægt að kalla mig öflugan bloggara, enda þykist maður alltaf vera svo hriklega bissí og gefur sér lítinn tíma í bloggskrif. Ég er samt sem áður þess fullviss að ég hafi grætt nokkrar klukkustundir á dag eingöngu vegna þess að ég bý nú á Höfn en ekki í Reykjavík. Í borginni fannst mér ég alltaf vera keyrandi, og það eitt að skreppa í bónus tók lágmark hálftíma, en hér get ég skroppið í Nettó á 10 mínútum. Þrátt fyrir þessa auka tíma, þá hef ég samt sem áður ekki tíma fyrir það sem ég hélt að ég myndi hafa tíma fyrir þegar ég væri flutt í sveitasæluna. Reyndar kenni ég náminu um að miklu leyti, en þeir sem eru og hafa verið í háskólanámi vita að vinnudeginum lýkur aldrei, það er alltaf hægt að gera meira. Mikið hlakka ég til þegar áfanganum verður náð, og það styttist í það. Þessi önn verður mjög strembin, en á næsta ári dóla ég mér að takmarkinu og fæ vonandi að starfa sem kennari með á síðustu metrunum. Ég þurfti því ver og mjög mikið miður að hafna tilboði ,sem dönskusjúklingi eins og mér finnst afar spennandi, en það var afleysingakennsla í dönsku , 8 tíma í viku í 4-6 vikur. Allt er það skólanum að kenna...ENGINN tími, alltaf að læra. Það er nefnilega þannig að á þessari önn er ég í vettvangsnámi í 2. bekk í Nesjaskóla og mun kenna þar í byrjun mars í 2 vikur, en undirbúningur fyrir slíkt er afar tímafrekur. Tveir dönskuáfangar á önninni halda mér gangandi.....af hverju flyt ég ekki bara til Danmerkur?? Elska sumrin þar, reyndar eru sumur í flest öllum öðrum löndum heimsins betri en hér, elska málið, elska rólegheitin, elska þetta ekta danska andrúmsloft og elska dönsk hús, allavega mörg dönsk hús. Það er aldrei að vita, kannski maður skelli sér í mastersnám til Danaveldis eftir x mörg ár. Mamma og pabbi fóru nú út með okkur FIMM, já fimm stykki börn á aldrinum 1. árs til 15. ára takk fyrir og svo var keyptur hundur í þokkabót, þannig að á mínum bæ er "mikið mál" engin afsökun.
Jæja.....best að nýta tímann og læra ;)
Hilsen, Íris

föstudagur, 11. janúar 2008

Guð er alltaf að poppa!

Það er með eindæmum fyndið hvað börnin manns (og annarra) geta látið upp úr sér. Ef maður bara gæti lesið hugsanir þeirra, væri maður örugglega í krampakasti alla daga. Hún Dagmar mín er enginn undantekning hvað varðar spakmæli og fyndnar pælingar. Við Óskar þurfum alltaf að láta hana pissa áður en við förum að sofa, því annars eru 99 % líkur á því að hún vakni upp um miðja nótt til að pissa, og því nennum við ekki ;) Allavega..þá var ég að girða hana í fyrrakvöld þegar hún kom með þessa setningu um Guð sem væri alltaf að poppa! Já, er það...hmmm. Eftir að við mæðgur lásum kvöldsögurnar þetta sama kvöld þurfti hún mikið að spjalla. Ég ákvað að kúra aðeins hjá henni og eftir smá stund sagði hún: Mamma, veistu hvað mig var að dreyma? Nei...bara strax farin að dreyma? Mig dreymdi að ég væri á dansleik með Júlíusi og Björgvini, og þeir voru að halda á mér og lyfta mér og kyssast! Jahá...það er aldeilis, bara mín í einhverju prinsessudansleikjadraumalandi (fyrir utan það að hún var auðvitað ekki sofnuð og því ekki að dreyma). Hún tilkynnti mér svo það að hún og ofangreindir vinir hennar, sem eru tvíburabræður, væru kærustupar. Ok, snemma byrjar það......
En nú er Elín mín vælandi, litla lasna dúllan sem var svo heppin að fá einhvern vírus, þannig að ég læt þetta duga að sinni.
Over, Íris

föstudagur, 4. janúar 2008

Hún er eins árs í dag!!

Já það er stutt á milli afmæla þeirra systra, aðeins rúmur mánuður síðan að Dagmar Lilja varð 4. ára. Fyrir ári síðan fæddist hún Elín Ósk, heilu ÁRI síðan. Ætlum að bjóða fjölskyldunni í kaffi á morgun, vonandi hefur fólk ennþá matarlyst eftir jólaátið!

En hér er litla prinsessan okkar nýfædd og orgar eftir mjólk!!

Og hér er hún með stóru systur um ári síðar! Mikið svakalega er ég heppin :):)

Þangað til næst...... og gleðilegt ár!

Íris