sunnudagur, 23. desember 2007

Gleðileg jól kæru vinir & vandamenn


Það styttist óðum í að klukkurnar hringi inn jólin. Nóg er á dagskrá morgundagsins og því tilvalið að henda nokkrum hugsunum á "blað" í kvöld. Ilmurinn af hamborgarhryggnum, klukknahljómurinn kl. 18 og útvarpsmessan í framhaldinu eru merki þess að jólin eru komin á mínum bæ. Þegar stelpurnar eldast förum við kannski með þær í messu, en það verður ekki þessi jólin. Við erum búin að skreyta þetta fína tré sem Óskar og Dagmar völdu í vikunni. Dagmar er loksins komin á þann aldur að hún er farin að skilja meira og taka þátt í udirbúningnum á margan hátt, sem okkur foreldrunum finnst svo skemmtilegt. Hún tók t.d. mjög virkan þátt í að skreyta tréð fyrr í kvöld, skrifaði á pakkaspjöld og skreytti piparkökur svo eitthvað sé nefnt.
Ég var að horfa og hlusta á hana Svanfríði á bloggsíðu hennar, en hún býr í USA. Það er eitthvað við þennan tíma sem veldur því að hugsanir manns fara á fullt, jákvæðar hugsanir. Á hverju ári á þessum tíma hugsa ég hvað ég er einstaklega heppin og rík að eiga frábærann mann og tvo gullmola. Ég fyllist þakklæti fyrir það hvað ég á góða að, yndislega fjölskyldu og góða vini. Við Svanfríður eigum nefnilega það sameiginlegt að í okkur báðum slær agnarlítið músarhjarta og á þessum tímum, sérstaklega, verður maður e-ð svo viðkvæmur.


Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að ykkur öllum líði jafn vel í hjartanu og mér :)

Íris

föstudagur, 21. desember 2007

Bleik jól!


Þá fer að koma að því, 31. jólin mín. Eðlilega man ég ekki eftir þeim öllum, en ein og ein minning poppar fram annað veifið. Mér eru sérstaklega minnisstæð þau jól þar sem ég hefði komist að því hvað ég fengi í jólagjöf frá pabba & mömmu fyrir aðfangadag. Ég var með eindæmum forvitið barn og ég var alltaf jafn svekkt út í sjálfan mig eftir að ég hafði fundið leynipakkastaðinn og séð gjöfina handa mér, en samt gerði ég þetta!! Ég er þekkt fyrir mitt músarhjarta og sem barn var ég voðalega lítið hrifin af jólasveinum. Þegar ég var 4-5 ára bjuggum við í Bolungarvík og eyddum jólunum með Tobbu systur mömmu og Kristjáni manninum hennar. Á aðfangadagskvöld er bankað á útihurðina og mitt litla hjartatók kipp!! Inn kom jólasveinninn og ég sat sem fastast í fangi mömmu og þorði lítið sem ekkert að gera. Eftir að sveinki fór aftur og við fórum að ræða þessa upplifun betur, hafði ég aðeins eitt að segja og það var ,,Af hverju var jólasveinninn í konustígvélum?" Þá hafði Tobba skellt sér í búning og leðurstígvélin sín.... svona feminin jólasveinn!!

Þið sem ekki kannist við málið veltið eflaust fyrir ykkur hvaða mynd þetta er hér að ofan. Þessa mynd og fleiri myndir af bleikum femínistajólasveinum má finna á síðu einnar MJÖG harðrar femínistakonu hér á landi, Sóleyjar Tómasdóttur. Um er að ræða myndir af jólasveinunum ásamt texta sem prýða jólakort femínistafélags Íslands. Veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða þetta en mér finnst þetta allt allt of langt gengið. Ég tel mig vera femínista og vil jafnrétti í einu og öllu....en þarf að blanda jólasveinunum í málið?!! Smekkleysu má kannski kalla þetta. a.m.k. leiðist mér þegar þörf umræða verður að vitleysu eins og þessari!!
Íris....rauði jólasveinninn

föstudagur, 14. desember 2007

jólajólajólajóla...

Þá er jólaundirbúningur hafinn hér á Mánabrautinni fyrir alvöru. Rauð jólasería hangir framan á húsinu, inniljós hér og þar og svo auðvitað jóladúkar og aðventuljós. Húsmóðirin ég fór meira að segja út í blómabúð og keypti efni í útikrans, en slíkt föndur er ég síður en svo þekkt fyrir. Ég fékk góðar leiðbeiningar og aðstoð mömmu við að koma honum saman, og er ég bara hin ánægðasta með útkomuna. Svo skellti ég í súkkulaðibitasmákökur sem lukkuðust líka glimrandi vel og bragðast sem betur fer líka jafn vel. Held að þessi lyftidufts-natron uppgötvun mín sé loks farin að skila árangri!! About time!
Eitt af því besta sem ég veit, er að lesa góða bók, það er minn quality time. Nú eru skólabækurnar komnar til hliðar og LOKSINS er ég farin að lesa Flugdrekahlauparann. Þetta er reyndar í þriðja sinn sem ég byrja, en sökum anna hefur bókin alltaf verið lögð til hliðar. Núna er ég komin langt með hana og get varla lagt hana frá mér. Ef þið hafið ekki lesið hana, þá er óhætt að mæla með henni.

Nú fær hún Dagmar Lilja í skóinn í fyrsta sinn, en hún talaði ekkert um þetta á síðasta ári og því fannst okkur tilgangslaust að byrja á þvi þá. Á hverjum morgni segir hún ,,mamma, sjáðu hvað Stekkjarstaur (eða hver sá sem kom þá nóttina) var ánægður með mig!" Og svo er svo leikandi létt að koma henni í rúmið þessari elsku, reyndar hefur það nú aldrei verið vandamál, en nú er enn meiri ástæða til að drífa sig í háttinn. Einn ókostur fylgir þessari heimsókn jólasveinanna og það er hversu áköf hún er að drífa sig fram úr á morgnanna, nú er ekkert verið að kúra..ónei!!


Á von á nokkrum kvennsum í heimsókn í kvöld, ætla að bjóða "föndurklúbbspíum" (með áherslu á föndur :) í spæsí súpu og öl, og svo verður líklega farið í leiki og ekki má gleyma jólapakkalottóinu. Kannski maður fari þá að taka til hendinni hér heima á meðan skotturnar mínar eru ekki á staðnum.
Gangi ykkur vel í jólaundirbúningnum!
Kv, Sveitapían


fimmtudagur, 6. desember 2007

Ó hvílíkt frelsi!!

Frábær tilfinning að vera búinn með skólann á þessu ári a.m.k. Þá tekur bara eintóm sæla við án námsbóka í heilan mánuð, getur ekki orðið betra!! Gat ekki varist brosi þegar ég gekk út úr prófstofunni, enda ekkert lítil verkefnagleði kennara á önninni og mikil vinna þar af leiðandi. Það er svo kósý stemning hérna í sveitinni, að öllum sem voru í prófi var úthlutað sprittkerti til að ná slökun. Svei mér þá ef það hefur ekki bara virkað!
Nú ætla ég s.s. að leggja mig alla fram við að komast í jólagírinn, skreyta hátt og lágt, kaupa jólagjafir, prenta jólakort, BAKA og hlusta á yndisleg jólalög. En ég er búin að komast að því hve lítið jólaskraut ég á núna, miðað við þegar ég bjó í Hraunbænum, húsið er svo stórt! Geri það besta úr því sem til er, sem vonandi dugar. Held samt að það þurfi ekki mikið til, ég er nú þegar komin í þvílíkt jólastuð :) Og svona til þeirra sem eru jafn litlir bakarar og ég, en ALLT mislukkast sem ég reyni að baka, þá er ég búin að komast að því að lyftiduft og natron er EKKI það sama (og ég nýbúin að fatta það,31 árs gömul...sssshhhhhhh ekki segja)!! Hahahaha....nútímahúsmóðir eða hvað?
Jæja, út með skólann inn með jólin:) Jibbí
Kv, Íris Konditori

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Köben og skóli..

Jæja, þá erum við mæðgur komnar heim eftir frábæra ferð til Kaupmannahafnar. Það er alltaf góð tilfinning að vera þar, og ekki skemmir að vera í æðislegri íbúð Marínar móðursystur, sem er örstutt frá Strikinu og Nyhavn, og í góðum félagsskap. Það er auðvitað mikill kostur þegar mikið er verslað, þá tekur bara 10 mín að skreppa í íbúðina með varninginn og halda svo áfram;)Við drukkum ófáa julebryg og hvítvín, sem var kærkomin tilbreyting.
Brúðakjólamátunin var skrýtin upplifun. Maður er auðvitað ekki vanur því að máta svona flík (sem betur fer) og mér leið lengi eins og rjómaköku. Þjónustan var alveg frábær og hún Bettina vissi alveg hvað fór mér og útskýrði allataf hvers vegna og hvers vegna ekki og allt það. Mamma, sem er með músarhjarta eins og ég, fékk tár í augun þegar ég var komin í rétta kjólinn, þannig að það má búast við miklu táraflóði þegar stundin mikla rennur upp. Hildur var með okkur líka, og það var rosalega gaman hjá okkur. Fann meira að segja kjóla á stelpurnar, sem eru voða sætir sumarkjólar. Nú þarf bara að bíða....lengi!
Hún Dagmar Lilja varð 4 ára í gær og hélt upp á það með því að bjóða til veislu nokkrum vinum af leikskólanum, og síðar um daginn ömmum og öfum. það var mikið fjör, en 2 klst er sko meira en nóg fyrir þennan aldur!! Hún var alveg að spila út greyið og vissi ekkert hvernig hún ætti að haga sér, svo úr varð heljarinnar show með ups and downs :) Við setjum fljótleg inn myndir á síðuna þeirra systra.
Svo fer að líða að prófinu eina og sanna, sem ég er engan veginn að nenna. En, illu er best af lokið!!
Elín mín er alveg að spila út inn í herbergi, á að vera sofandi, svo það er best að sinna frökeninni.
Læt heyra í mér eftir prófið, það verður vonandi glaður og sæll kennaranemi sem skrifar pistilinn þá!
Kv, Íris Heiður

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Venlig hilsen.....

Já, þá er að styttast í mæðgnaferðina langþráðu. Vildi bara kasta á ykkur kveðju....á dönsku selvfölgelig:)
Til næste gang.....venlig hilsen,
borgarpían ;)

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Overdose....

Ekki er það nú áfengið eða eiturlyfin sem ég hef óverdósað á, heldur lærdómurinn. Mikið svakalega eru allir kennarar verkefnaglaðir á sama tíma. Ég er gjörsamlega búin að fá mig fullsadda á lestri um agavandamál, málþroska barna og eigindlegar rannsóknir. Ég get svarið fyrir það að til eru 10 þús leiðir og ráð um það hvernig leysa skuli úr agavandmálum sem upp koma í skólastofunni, hvort sem það eru skyndilausnir eða langtímalausnir. Það er alltaf og allsstaðar verið að tala um það hversu gott það sé að vinna með nemendum sínum t.d. að bekkjarreglum, tilhögun heimanáms, uppröðun skólastofunnar og fleira. Nú halda sumir því fram að ein leið til að leysa agavandamál sé að fá nemandann til að setjast niður og ræða við hann um það hvað hann telji bestu "refsinguna" hverju sinni. Sem sagt "Nonni minn, nú gerðir þú þetta og þetta...hvað telur þú mig geta gert til þess að koma í veg fyrir að þessi hegðun endurtaki sig?" Amen!

Jæja yfir í allt annað...Köbenhavn! Já, aðeins vika í langþráða mæðgnaferð, og ég á meira að segja tíma í brúðarkjólamátun...spændende ;)

Skruppum í bæinn síðustu helgi, frá föst til sunn. Mikið span og þetta geri ég ekki aftur, a.m.k. verða þær systur eftir heima ef það á að stoppa svona stutt. Elín greyið ældi föstudagskvöld, hefur líklega orðið illt eftir langa bílferð, og fékk svo hita og vaknaði að meðaltali 20 sinnum á nóttu föst og lau. Við Óskar vorum sem sagt útkeyrð eftir helgina, en við hittum samt ættingja og vini, sem bjargaði þessu öllu saman. Fórum í veglega 3ja rétta afmælisveislu á Lækjarbrekku í hádeginu á lau, í tilefni 85 ára afmælis Lóló ömmu Óskars. Æðislegur matur og góður félagsskapur. Svo skrapp ég í 30 afmæli Evu vinkonu, sem skrapp á klakann frá Ameríkunni til þess að fagna tímamótunum með vinkonum og fjölskyldunni. Það var auðvitað æðislegt að hitta hana, þó stutt væri. Takk fyrir mig!!

Svo er það bara helgin framundan, þar sem planið er að Óskar fari á rjúpu. Best að gefa honum allan þann tíma sem hann þarf til að sinna því áhugamáli, því ég er að fara til Köben...liggaliggalái:)

Jæja, Dagmar var að kalla mömmu sína illum nöfnum..best að spyrja hana hvað ég eigi að gera til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur! Kannski púsla eða eitthvað...

Kv, Íris agastjóri

miðvikudagur, 17. október 2007

Ný borgarstjórn!

Nei bara grín, ég ætla sko ekki að tjá mig um það mál, nóg er gert að því á öllum öðrum stöðum. Vona bara að ný borgarstjórn komi með einhverja góða lausn á leikskólavandanum. Læt þar við sitja!

Var að fá fréttir af nýjum fjölskyldumeðlimi, en hún Anna Marín frænka mín var að eignast frumburðinn í dag 17. okt, og fæddi stelpu. Ætla heldur betur að máta þá litlu þegar við mamma skreppum til Köben í nóv.
Okkur Óskari finnst við alltaf eiga svolítið í henni Önnu Marín, því við þrjú bjuggum saman á tímabili þegar við Skari vorum í FÁ. AM var þá í 10. bekk og mamma hennar nýflutt til Skagen. Þetta voru nokkrir mánuðir á Bergstaðastræti, í frábærri íbúð sem mamma hennar átti. Við Óskar vorum soddan hjón að okkur var treyst fyrir unglingnum :) Það var mikið spilað, man að rommý var einna vinsælast, vorum eiginlega orðin spilafíklar. Þannig að, í ljósi þessa órjúfanlegu tengsla, á ég auðvitað von á að daman verði skírð í höfuðið á okkur...Íris Ósk...Heiður Ósk...eða bara Íris Heiður :)....já, eða kannski bara e-ð allt allt annað, en þá fer hún af brúðkaupsgestalistanum for sure!

Við Elín Ósk ætlum að skreppa í bæinn á morgun með flugi, bara rétt til að láta sérfræðing kíkja í eyrun á henni og svo heim aftur. Sem betur fer er jafnþrýstibúnaður í vélinni, þannig að minni líkur eru á að hljóðhimnan springi, en hún er víst útþanin öðru megin a.m.k. Með fullri virðingu fyrir heimilislæknum, þá segir fyrri reynsla okkur á eyrnabólgu það að fara bara beint til sérfræðings. Einn sagði t.d. að Dagmar væri bara með smá roða...hmmm já ok, en viku seinna sagði annar að hún væri með mikla eyrnabólgu, sem væri búin að vera lengi 3-4 vikur og Dagmar greyið með rétt um 50% heyrn. Tökum þ.a.l. enga sénsa!

Nóg í bili,
Íris

þriðjudagur, 9. október 2007

Away from home...

Já það voru fá viðbrögðin við alvarlegu innleggi síðast... enda kannski ekki furða!

En núna er húsmóðirin í RVK, búin að vera heila 6 daga og 2 eftir. Það er ansi langur tími og ég get ekki annað en viðurkennt hve mikið rosalega ég sakna stelpnanna og Óskars...maður kann ekki að vera svona einn lengur...a.m.k. ekki svona lengi. Það er reyndar búið að vera mjög gaman og ég hef hitt marga, sem er frábært. Skellti mér á djamm með Ingibjörgu sys, og ég hef ekki fengið mér í glas frá því í mars 2006 Ó JÁ.. og ég fór kannski heldur geyst af stað..hehe..rauðvín, hvítvín, bjór, kokteilar og tequila...úff! Ég leið líka fyrir þessa blöndu daginn eftir..OJ
Nú verð ég að fara að læra...en mikið hlakka ég til að komast heim til fjölskyldunnar, í kyrrðina og rólegheitin..ahhhhhh..
over, Íris

þriðjudagur, 2. október 2007

Grimmur heimur

Verð bara að tjá mig um þann viðbjóð sem ég sá í sjónvarpinu áðan. Ætlaði að setjast niður og horfa á hinn heimsfræga Dr. Phil, en eftir að hafa séð introið, var ég fljót að slökkva á imbanum. Viðfangsefni þáttarins að þessu sinni var "Can you trust your nanny"? Myndbandsupptökur sýndu að sumum þeirra er greinilega langt frá því að vera treystandi, því börnunum var misþyrmt grimmilega. Mikið svakalega er til margt ruglað og grimmt fólk í heiminum. Vildi að heimurinn væri án ofbeldis, og vildi að ég hefði aldrei séð byrjunina á þættinum.
Blessuð börnin....snökt snökt..

þriðjudagur, 25. september 2007

Bryllup

Long time ago!!
Það er búið að vera ansi mikið að gera undanfarið, þá sérstaklega í náminu. En þar sem ég var svo asskoti dugleg í morgun, þá ákvað ég að nú skyldi ég henda inn einni færslu og hvíla heilabúið í smá tíma.
Brúðkaupið verður 28. júní á næsta ári, þannig að þið sem búið i udlandet, getið farið að plana heimferð þá helgi a.m.k. Er búin að skoða trilljón billjónir kjóla á netinu, en ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera, hvaða snið klæðir mig, hvort hann eigi að vera með ermum eða ermalaus, blúndu/ekki blúndu, V-hálsmáli, hlýralaus....og ég veit ekki hvað. Þannig að ef þið teljið ykkur þekkja mig vel og sjáið einmitt ekta "Írisarbrúðkaupskjól" á netinu, þá eru þær hugmyndir vel þegnar iris-hj@hotmail.com. Það væri reyndar mjög fyndið að sjá hvaða kjóll þið haldið að sé "ég".
Svo fer að styttast í næstu staðlotu í skólanum, og ég þarf meira að segja að vera lengur núna en í fyrra skiptið, heila 9 daga!!! Það er mjög mikið þegar maður er án grislinganna og mannsins...spurning um að vera bara hrikalega dugleg að læra svo tíminn fljúgi áfram. Annars er ég búin að ákveða að það verði sofið út einn morguninn, því það tókst ekki síðast. Ég SKAL sofa út núna!!
Annars er það að frétta af skottunum að Elín Ósk er byrjuð hjá dagmömmu. Ég hélt það myndi ekki takast því aðlögunin fór ekki vel af stað og tók langan tíma. En núna er hún hin ánægðasta og hefur félagsskap af einum 11 mán gutta. Hann ákvað meira að segja að byrja að skríða svo hann gæti veitt Elínu eftirför, en hún er all over the place þessa dagana, tekur stigann eins og ekkert sé. Elskulega dagmamman hefur boðið okkur að hafa Elínu hjá sér lengur en vanalega þá viku sem ég er í burtu, svo Óskar þurfi ekki að taka sér mikið frí. Þvílíkur lúxus að hafa gott fólk í kringum sig.
Dagmar Lilja er bara í stuði og pælir enn mikið í útlitinu, og hefur ennþá miklar áhyggjur af því hvort hún líti nógu vel út fyrir Júlíus og Björgvin. Ætlaði sko ekki í grænum bol í leikskólann í morgun því J & B þætti hann ekki fallegur, en ég náði að sannfæra hana um það að þeir hefðu einmitt sagt mér um daginn að þeim þætti grænn svo rosalega flottur. OK þá! Annars er "Ó mæ god" algengur frasi hjá skvísunni, lágmark sagt 20x á dag :)
Jæja, best að læra aðeins meira, úr því fröken Elín er sofnuð.
Kærar kveðjur úr sveitinni :)

fimmtudagur, 13. september 2007

Áááái....

Já það er ekki tekið út með sældinni að vera ég þessa dagana. Nú er "come back" í ræktinni, búin að fara 2x í þessari viku, í bodupump og bodystep! Það er yndislegt að finna LOKSINS aftur fyrir þessum vöðvum mínum, sem hafa legið í dvala svo lengi, en mikið er það rosalega sárt. Get varla haldið á Elínu fyrir harðsperrum...OMG!! Þetta eru frábærir tímar hjá henni Kollu vinkonu, og meðalaldurinn er örugglega 45 ára, sem er frábært! EN.... hvar eru yngri stelpurnar?? Sorry to say, en ég held að ef við vigtuðum allar stelpurnar á Höfn á aldrinum 25-35 , þá fengjum við meðaltal LANGT yfir kjörþyngd (og þá meina ég langt)! Ég er ekki að segja að allir eigi að vera flottir og fitt, en þegar þetta er komið út í öfgar þá er mér nóg boðið, svona ungar stelpur.
Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur, Elín að jafna sig á eyrnabólgu og tönnunum fjölgar bara. Dagmar Lilja er ennþá með unglingaveikina hina fyrri. Fyrir utan æðisköstin, þá er útlitið allt í einu orðið svakalegt atriði, sagði meira að segja við Óskar einn morguninn þegar verið var að velja föt fyrir leikskólann: "Pabbi, ég vil ekki að Björgvin sjái mig í þessum buxum!" Jájá...einmitt...þú ert 3ja ekki 13!!!!
Over....Íris (90-60-90) hehe..

mánudagur, 3. september 2007

úff.....

Þá er ég komin heim úr borginni. Hitti auðvitað helling og hitti líka EKKI helling, en svona er það bara. Það er nú meiri lúxusinn að koma í svona borgarferð, manni er boðið í mat nánast alla daga og frí gisting. TAKK fyrir mig...you know who you are!!:)
Ég hélt ég gæti ekki komið mér yfir pípuhliðið, svo erfitt var að fara frá litlu snúllunum mínum. Það er nú meira hvað maður er ótrúlega háður þeim. Svo var ég extra viðkvæm þar sem ég var að hætta með Elínu á brjósti og ég sakna þess ekkert smá. En þessi elska er svo mögnuð og var rosalega góð. Óskar er líka einstaklega laginn og hún þekkir pabba sinn vel, þar sem hann er búinn að vera í barneignaleyfi í 1 1/2 mánuð. Skólinn er byrjaður á fullu og ég vona að ég hafi þetta. Sem betur fer er bara próf í 1 áfanga, en það þýðir jafnframt að ég verð að vinna jafnt og þétt alla önnina og skila mörgum verkefnum, en ég geri hvað sem er fyrir að losna við próf!! Titillinn á þessu innleggi vísar til þess ástands sem nú ríkir á mínu heimili...eyrnabólga!!! Já hún Elín mín komin með þennan fjanda, hvað er málið með eyrnabólgu og íslensk börn?? Það hefur því verið lítið sofið (vægast sagt) síðustu daga. En það er gott að fá það á hreint hvað er að hrjá litla skinnið og bæta ástandið asap!!
Var boðið að vera með í föndurklúbbi...nú er bara að leggja höfuðið í bleyti og finna uppá einhverju sniðugu að gera....er ekki prjónatýpan því miður!!
Lifið heil kæru vinir :):)

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Veggfóður, Köben, skóli......

Jæja, þá er maður orðinn árinu eldri & ég tel mig ekki breytta á neinn hátt, a.m.k. ekki orðin "kelling" ...ennþá...hjúkk!! Að tilefni dagsins var velútvöldum vinum & fjölskyldumeðlimum boðið í kaffisamsæti (soldið kellingalegt..eða?) sem var bara fínt. Óskar lét ekki sjá sig þar sem hann var í fjallgöngu með öðrum göngugörpum. En hann færði mér þennann líka flotta útivistarfatnað, sem ég er hæstánægð með. Hann klikkar ekki...sko Óskar!
Annars ætluðum við "hjónin" að ráðast í veggfóðrun í fyrsta sinn á ævinni & eftir þessa heiðarlegu tilraun, lítur allt út fyrir að þetta hafi einnig verið okkar síðasta. Já, maður er ekki fæddur til að veggfóðra, það er nokkuð ljóst..en flest annað auðvitað :)
Svo styttist óðum í að alvara lífsins taki við að nýju, já skólinn bara að byrja eftir rúma viku. Þá fer ég keyrandi til höfuðborgarinnar & verð í 5 daga "orlofi", þ.e. húsmæðraorlofi. Þá verður sú styttri bara að gjöra svo vel að sætta sig við að hætta á brjósti fyrir fullt & allt, en eins & það er frábært að fá það frelsi á ný, þá mun stór partur af mér sakna þess, þetta er svo kósý! Ég verð í 10 einingum í haust & ég verð bara að játa það að ég kvíði svolítið náminu, aðallega vegna þess hve hún Elín mín sefur lítið á daginn. Spurning um hvort hún skreppi ekki til dagmömmu 2-3 skipti í viku 2-3 tíma í senn, svo ég geti afrekað eitthvað smá. Hún er líka svo mikil mömmustelpa, að ég held við hefðum báðar gott af þessu, svo finnst henni fátt skemmtilegra en að vera umkringd krökkum & börnum, þá er sko stuð!
En ég hlakka voða mikið til að hitta vinkonur mínar, ömmu & fleira fólk sem mér þykir vænt um & sakna að hafa nálægt mér.
Við mamma ætlum svo að lyfta okkur aðeins upp í vetur, nánar tiltekið í nóvember & skella okkur til Köben, en sú borg er í miklu uppáhaldi hjá mér & reyndar henni líka. Finnst eins & ég sé komin heim þegar ég er þarna, enda farin að kunna ansi vel á pleisið & svo er íbúðin hennar Mæju svo frábær & alveg niðrí bæ. Þannig að það gerist ekki betra. Kannski maður kíki á nokkra brúðarkjóla í leiðinni..hmm.. Talandi um það, þá er 12. júlí ekki alveg niðurnegld dagsetning, þið verðið bara að bíða spennt eftir frekari upplýsingum.
Jæja, best að kíkja á draugaþáttinn á Discovery...úúhhhhh...læt þetta því nægja að sinni.
Hafðið það gott þangað til næst...

mánudagur, 6. ágúst 2007

Ertu kelling!!!??

Þá er ágústmánuður hafinn...eru virkilega 7 mánuðir síðan Elín Ósk kom í heiminn??!! Þetta er svo furðulegt með tímann, hvað hann getur liðið hratt, en samt eldist maður ekkert, þið hljótið að kannast við þessa tilfinningu:) En ég hef sannfærst um það, að það erum við sjálf sem ráðum því hvort við eldumst eða ekki. Við ráðum því hvort við verðum "kellingar" fyrir aldur fram & klæðum okkur í takt við það. Það þekkja allir einhverjar ungar stelpur sem eru að drepast úr, að mér finnst, leiðindum. Þó við séum orðin foreldrar & þurfum að haga okkur samkvæmt því, vera fyrirmyndir barnanna okkar o.s.frv., þá megum við ekki gleyma að djóka & leyfa okkur að vera við sjálf. Það geri ég a.m.k. & mun gera áfram. Þoli ekki ungar stelpur sem eru orðnar of fullorðnar (inní sér) til að djóka & fíflast. Það er einfaldlega leiðinlegur félagsskapur! Hef ekki hugmynd um afhverju ég fór að blaðra um þetta núna, ætlaði bara að skrifa um eitthvað annað, en svo kom þetta.... kannski það sé vegna þess a nú eru 7 dagar í að ég verð árinu eldri.....Ég SKAL ekki verða kelling!!!!
hehe.... over..

föstudagur, 27. júlí 2007

Það þarf svo lítið....

Þið sem hafið eignast börn þekkið hve ótrúlega ómissandi maður er á meðan barnið er á brjósti. Það er varla hægt að skreppa frá lengur en 2-3 klst í senn, annars er allt vitlaust! A.m.k. er það þannig í mínu tilfelli, því hún Elín mín ELSKAR brjóstið meira en allt annað. Núna er hún aðeins farin að borða grauta & ávaxtamauk, en hún fær samt sjússinn sinn nokkrum sinnum á dag & sérstaklega er hann mikilvægur fyrir svefninn. Eftir að hún er sofnuð á kvöldin, milli 19 & 20, þá tekur Óskar við vaktinni með stoðmjólk í glasi, just in case. Nú er ég s.s. að minnka bróstagjöfina & bara það að vera laus á kvöldin er ÆÐI!! Þessi elska var farin að vakna 4-6 sinnum á nóttu til að hafa það kósý hvort sem hún var svöng eða ekki, & skapið mitt var eftir því daginn eftir :/ Við fluttum hana í sitt eigið herbergi & síðan þá hafa allir sofið miklu betur...hallelúja! Hún var að vakna eflaust við hroturnar & bylturnar okkar, & ég vaknaði við minnstu hljóð í henni...þannig að ég mæli með þessu eins snemma & foreldrar treysta sér í þennan aðskilnað :) Að þurfa ekki að gefa henni í 12 klst er þvílíkur lúxus að það hálfa væri nóg, & hélt ég uppá það s.l. þriðjudagskvöld með einu glasi af mjög góðu hvítvíni...mmmm...kannski maður fái sér annað í kvöld!
Næsta helgi er heldur betur viðburðarík hér í bræðslubænum Höfn, því hingað flykkjast hópar af ungu afreksfólki í íþróttum, þjálfurum & foreldrum. Bærinn verður s.s. fullur af fólki, sem er frábær tilbreyting um Verslunarmannahelgina, þar sem fólk er annars vant að fara eitthvert annað. Að því tilefni skaut pabbi því að mér að ég mætti alveg vinna hjá honum í Nettó þá helgi, þar sem það verður brjálað að gera & opið lengur en vanalega. Ég , sem er búin að vera svona ómissandi heimavið, en að verða aðeins frjálsari, tók þessari bón hans fegins hendi & get ekki beðið eftir að fara að vinna. Auðvitað er húsmóðurhlutverkið mjög krefjandi & full vinna, en þetta er samt allt öðruvísi. Bara það að komast aðeins í annað umhverfi, þó það verði mjólkurkælirinn eða við búðarkassann, verður þvílíkt gaman..jeij!! hehe..skiljiði mig!?
Já, það þarf ekki mikið til að gleðja mitt litla hjarta..Nettó here I come!!hehe..
Hafið það gott elskurnar...

sunnudagur, 15. júlí 2007

Íris garðyrkjufræðingur to be!

Jæja gott fólk, best að láta aðeins vita af sér, þótt ekki sé um nein stórtíðindi að ræða. Garðurinn var til umræðu hér síðast & gengur bara þokkalega að rífa burt illgresi, vökva & slá. Fékk hjálp í dag frá mömmu & varð voða fegin að heyra hana segjast ætla að koma aftur í beðin..allir velkomnir:) Hún Ragna mín var ekki alveg að skilja ánægju mína með garðvinnuna, enda er hún borgarbarn & býr líka á Seltjarnarnesinu, þar sem er alltaf ROK, & því leiðinlegt að vinna í garðinum í slíku veðri..hehehe..kannski maður skíri eins & eina plöntu í garðinum í höfuðið á henni, einhverja sem er svolítið erfitt að eiga við:):) Og svo ég slútti þessu garðatali, í bili a.m.k. þá náði ég mér í stóru garðabókina, svo ég viti kannski e-ð pínulítið um garða!
Ég hef alltaf litið á mig sem mikinn dýravin, þó ég eigi engin dýr sjálf, en þau kvikindi sem maður rekst á í garðinum (get ekki slitið mig frá því umræðuefni) eru síður en svo í uppáhaldi. Ég kála öllum þeim köngurlóm sem ég sé með garðverkfærunum.. Sorry...en ég ÞOLI ekki þessi kvikindi!
Annars sakna ég sólarinnar á Höfn, sérstaklega þegar fréttir af bongóblíðu úr Reykjavík heyrast dag eftir dag. Hér var fínasta veður í júní, en það er alltaf þessi gola eftir hádegi, nánast á slaginu 12, sem við ætlum ekki að losna við. Ég verð bara að trúa því að afmælismánuðurinn góði bjargi sumrinu hér í sveitinni.
Við bíðum svo spennt eftir öllum ferðalöngunum sem ætla að leggja suð-austurland undir fót & bjóða þeim öllum í kaffi & meðí (líklega úr bakaríinu, nema einhver kenni mér að baka..en það er umræðuefni í langan pistil) eða jafnvel humar. En von er á fjölskyldumeðlimum & öðrum vinum næstu daga, gaman gaman!
Kveð ykkur að sinni & minni á að kvitta, það er svo gaman:) Koma svo!!!

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Skrúðgarðurinn mikli!

Þar sem okkar yndislega húsi fylgir stór & mikill garður, þýðir víst lítið að sitja inni á kvöldin & glápa á imbann. Mín lagðist á fjórar þegar skotturnar voru sofnaðar í gær & beint í beðin. Því miður er ALLT of mikið af þeim, þannig að það sem ég afrekaði þessa kvöldstund má helst líkja við krækiber í helvíti, svo mikið er eftir...:( Reyndar kemur mér gríðarlega á óvart hversu mikið ég fæ út úr þessari garðvinnu, mér finnst fátt eins notalegt & hlusta á kyrrðina í góðu veðri að kvöldi & róta í arfanum. Ég man vel hvað mér þótti þetta hrikalega leiðinlegt hérna áður fyrr, en þá átti ég ekki garðinn sjálf, & svo er það bara þessi yndilega ró sem færist yfir mann sem ég elska, þar sem lítið er að henni svona dags daglega með eina sem er með 3ja ára veikina á mjög háu stigi & svo hina litlu sem heitir ekki Elín Ósk fyrir ekki neitt!!
Við höfum reyndar tekið þá ákvörðun að fækka beðunum verulega & einfalda þetta (ó)skipulag. Við höfum engan tíma fyrir svona mikla arfavinnu!
En yfir til ykkar!!
Íris með græna fingur

föstudagur, 6. júlí 2007

Aðstoð óskast!!!!!

Helló alle sammen!
Þannig er mál með vexti að aulanum mér, tókst einhvernveginn að klúðra leyniorðinu mínu á hotmailinu mínu. Allt í einu vildi það ekki leyniorðið og ég er búin að vera í vandræðum síðan & reyna allan andsk... en ekkert hefur gengið. Því er ég núna komin með nýja hotmail adressu sem er iris-hj@hotmail.com. Nú var ég með alla mína kontakta (sem eru auðvitað rosalega margir:) á gamla mailinu, og ég er ekki með eina hræðu á msn-inu mínu, því auðvitað man ég ekki eina einustu e-mail adressu hjá vinum og kunningjum. Viljiði vera svo yndisleg að bæta mér inn á msn-ið ykkar svo ég geti nú spjallað & sent ykkur mail??!! Kennó gengið er líka vinsamlegast beðið um að láta boðin berast þeirra á milli.

Annars er bara allt í gúddí og við bíðum spennt eftir að fá heimsóknir í sumar...jeij!!

Later..gater!

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Sjóðheitar myndir!!

Jæja gott fólk. Nýjar myndir komnar af börnum og búi á heimasíðu stelpnanna á barnalandi. Enjoy!!

mánudagur, 2. júlí 2007

Heima er BEST

Loksins erum við flutt. Við sváfum fyrstu nóttina okkar á Mánabrautinni síðastliðna nótt & það var auðvitað bara æðislegt, & meira að segja hún Elín Ósk svaf til rúmlega 9, & það hefur ekki gerst í laaaangan tíma :)
Ég er búin að taka slatta af myndum til að sýna ykkur, en þar sem við erum ekki komin í net- né heimasímasamband, þá verð ég að bíða aðeins með að setja þær inn. Og þau ykkar sem hafa sent mér mail á hotmail adressuna mína, þá vill tölvan ekki samþykkja leyniorðið allt í einu, þannig að ég kemst ekki inn á póstinn eins og er, en það breytist þegar ég fæ mína tölvu í samband.
Hátíð á Höfn er nýafstaðin og við vorum nú frekar lítið í bænum, en kíktum auðvitað á sýninguna hans Hlyns, sem lukkaðist ekkert smá vel & hann seldi grimmt!! Langaði auðvitað í slatta af myndum eftir hann, en þar sem hann selur aðeins 3 eintök af hverri mynd, þá ákvað ég að leyfa áhugasömum kaupendum að ganga fyrir. Við Óskar ætlum samt að velja eina góða hjá honum & prenta jafnvel á striga.
Svo fékk ég óvænta heimsókn frá honum Binna Jósteins, en hann & Kristján flakka á milli bæja í sumar & selja "candyfloss" & sleikipinna. Dagmar fékk nokkra sleikjóa hjá þeim & var hin ánægðasta :) Alltaf gaman að hitta fólk svona óvænt!
Jæja, ég ætla að slútta þessum pistli, skrapp bara í tölvuna hjá tengdó á meðan ég þvæ nokkrar spjarir, en þvottahúsið er ekki alveg reddí að svo stöddu.
Later alle sammen!!

mánudagur, 25. júní 2007

Hátíð í bæ!!

Þá er að koma að því að við fjölskyldan flytjum á Mánabrautina, JúHÚÚÚ!!! Eftir langt og strangt vinnuferli erum við byrjuð að þrífa (sem er jú líka mikil vinna), en það er bara svo gaman að sjá fyrir endan á þessu. En VÁ hvað er rosalega skítugt! Það er s.s. hátíð í bæ á Mánabrautinni, en svo er líka að koma að Humarhátíð...og spáin....rigning en ekki hvað! Það hefur ekki rignt hérna í 3 vikur eða lengur...bíð bara eftir skógareldum eins og þegar ég var hjá henni Evu minni í Borrego í 50 stiga hita....kannski ekki alveg jafn heitt...og ekki skógur nálægt...nú jæja....
Já það sem er mest spennandi við humarhátíðina að þessu sinni er fyrsta ljósmynda- og málverkasýning Hlynsa bró. Ég hvet auðvitað alla sem mögulega geta að láta sjá sig og skoða frábærar myndir. Ég hef mikla trú á honum Hlynsa mínum!
Alltaf þegar ég ætla að skrifa pistil þá lætur hún Elín Ósk eins og hún hafi hvorki fengið vott né þurrt í marga daga, þannig að ég læt þetta gott heita að sinni. Næsti pistill verður vonandi skrifaður á Mánabrautinni :) JEIJ!

miðvikudagur, 20. júní 2007

Halló Hornafjörður!!

Hæ öll sömul!
Mikið svakalega er gaman að fá comment frá ykkur...takk fyrir það kæru vinir :)
Hér gengur lífið sinn vanagang, sem þýðir að við erum ekki flutt...VÆL..en svona er það nú bara. Allt þetta smotterí tekur svo langan tíma, en það er ekki eins og við séum bundin við einhverja ákveðna tímasetningu, þetta hefst þegar þetta hefst.
Hér er bongóblíða og við stelpurnar erum úti bókstaflega alla daga, allan daginn. Ég vona bara að þetta verði svona í ALLT sumar.
Já svona í lokin (Elín Ósk farin að kalla ansi ákaft á mömmu sína:), þá verður bryllup 12. júlí 2008...og hana nú!!!

miðvikudagur, 13. júní 2007

Lítil ástarsaga....:)

Þá er það ákveðið! Næsta sumar verður brúðkaupið haldið á landi ísa, nánar tiltekið á Lækjarbrekku. Risa stórt veislutjald mun rísa þar, vonandi í bongóblíðu á íslenskan mælikvarða (má líka alveg vera á danskan, sænskan eða norskan mælikvarða.....anyway) og þar verður svo dansað & drukkið fram á morgun. Það þarf víst að fara að telja gestafjöldann & taka frá gistingu, því hér er ferðamannabransinn í miklum blóma, og þegar farið að bóka fyrir næsta ár. Er ekki betra þá að ákveða daginn?! Jú, líklega.
En það var fyrir tæpum 15 árum síðan að draumaprinsinn fannst, og á Höfn, af öllum stöðum. Það er alltaf þannig að þegar nýtt "kjöt" kemur í bæinn & fer á röltið, þá mætti halda að maður sé nakinn á röltinu...svo mikla athygli fær maður, flautað & gefið í eins og ég veit ekki hvað. En svona stælar hrifu mig alls ekki!!........svo kom 5. september & Elli Gull ákveður að halda upp á afmælið sitt heima hjá Óskari sem var einn heima. Ég fór í partýið og kom fljótt auga á rosalega sætan strák sem var e-ð að glamra á gítar, dökkhærður, með skipt í miðju, bláeygður með kringlótt gleraugu :)................ekkert gerðist þar, en svo var farið í annað partý. Fljótlega var Íris komin í fangið á Óskari sínum, en á þessum tíma var ég nýflutt frá Danmörku & var hrikalega dönsk í alla staði. Var léleg í íslensku & kunni ekki fullt af orðum, & stundum byrjaði ég bara að tala dönsku án þess að taka eftir því strax. Ástföngnu unglingarnir eru e-ð að knúsast í einum hægindastólnum í partýinu þegar Óskar segir e-ð á þessa leið:,,Mér finnst þú æðisleg & held ég sé hrifinn af þér....er það gagnkvæmt?" GAGNKVÆMT!!!!!! ALARM!!!! Hvað í andsk... þýðir GAGNKVÆMT???##$%"%" Íris hefur ekki hugmynd um hvort hún á að segja já eða nei, en verður að hugsa hratt, & finnst eftir smá pælingar orðið gagnkvæmt vera frekar neikvætt orð og segir því: ,,Nei!" Óskar verður frekar furðulegur á svipinn & sleppir höndunum sem annars héldu svo þéttingsfast utan um Írisi sína......Íris ákveður því að viðurkenna fávisku sína: ,,Hvað þýðir það annars?"
Já & svo vita flestir sem okkur þekkja framhaldið... ups & downs, en þó aðallega ups. 15 ár með stuttum hléum, yndislegar dætur, blússandi hamingja & bestu vinir...er þá ekki kominn tími til að ganga í hjónaband?!

Over...Íris den danske pige ;)

fimmtudagur, 7. júní 2007

Ekki vandamálið !!

Sæl veriði!
Hér gengur lífið sinn vanagang, en mikil spenna ríkir hjá The Óskar´s þar sem óðum styttist í flutninga...en nú er planið að flytja inn þarnæstu helgi. Óskar & Haffi byrja að parketleggja TV-holið á morgun og svo er bara harkan 6 áfram..máli máli lakki lakki.. Breytingarnar nú þegar eru ótrúlega miklar, sérstaklega þar sem sumarbústaðafílingurinn var hvað mestur (en stigaop + tv-hol var þakið panell sem var orðinn ansi gulur á litinn). Ég mun reyna að setja inn myndir þegar þetta verður allt orðið tipp topp!
Þegar við tókum þessa ákvörðun um að flytja hingað, var auðvitað nr. 1, 2 & 3 að hér væri vinnu að fá fyrir okkur skötuhjúin, og ég get sagt ykkur að það stenst alveg, því Óskar er ekki að vinna í húsinu okkar í kvöld heldur í sumarbústað upp í Lóni að pípuleggja!!!. Það er reyndar fjölskylduvinur sem er í vandræðum því hann fær ekki pípara, en hann hafði samt samband við einn fyrir 1 og 1/2 mánuði síðan, bara til að vera alveg "sjor" á því að það yrði ekkert vesen..... en auðvitað er enginn pípari laus. En mikið er ég fegin að ástandið sé svona en ekki á hinn veginn!
Við Elín Ósk skruppum í göngutúr á Sjómannadaginn, sem er nú ekki merkilegt, nema að ég mætti manni sem vildi endilega að ég færi bara að kenna strax í haust...hmmm??....og hvað?? Myndmennt!!!! Dæsus...ÉG..kann ekki að teikna Óla prik hvað þá meira. Það vantar s.s. myndmenntakennara hingað (og reyndar bara kennara almennt) til að kenna 1.-3. bekkingum. Hér með auglýsi ég eftir áhugasömum einstaklingum í þá stöðu. Drífið ykkur á Höfn kennaranemar :)..Ragna mín..þú hefðir gott af smá slökun..hehehe..
Jájá, en hún Elín mín ætlar að vera heima með mömmu fram að áramótum...og þá sé ég til!
Lifið heil....

sunnudagur, 3. júní 2007

Allt á fullu en samt svo næs :)

Jájá, auðvitað varð ég að blogga eins og allt normalt fólk. Þessi stóra ákvörðun var endanlega tekin þar sem ég hef flúið stórborgina Reykjavík og komið mér fyrir á þeim merka stað Hornafirði, og mun þess vegna ekki hitta mína vini og vandamenn eins oft og ég gjarnan vildi.....gerir maður það nokkurn tímann??
Búslóðinni var hent á methraða inn í bílskúrinn (hans Óskars auðvitað) og í dag voru penslar, rúllur og aðrar nauðsynjar til málningarvinnu rifnar úr umbúðum og ermar uppbrettar enda 170 fm sem þarf að mála a.m.k. 2 - 3 umferðir. Svo þarf að lakka, pússa og ýmislegt annað álíka skemmtilegt.
Dagmar Lilja (sem er með snemmbúna unglingaveiki, eða 3ja ára veikina) er byrjuð í aðlögun á Lönguhólum og gengur bara vel. Hún er mikil félagsvera þessi elska og leiðist að hanga með mömmu og litlu systur daginn út & inn, hún vill action!! En hún er jafnframt viðkvæm sál og við vonum að hún verði áfram svona dugleg!
Junior er með ótrúlegt jafnaðargeð og er að taka tennur. Það sást glitta í þá fyrstu bara í dag og sú stutta 5 mánaða á morgun.
Það er s.s. allt á fullu, en samt er þetta allt öðruvísi dagar en í henni Reykjavíkinni. Ég er t.d. ekki nema 5 mín að labba í nýja húsið frá tengdó, þarf ekki að hafa áhyggjur af Dagmar og umferðinni, verð ekki vör við hurðaskelli, fulla kerlingu né bílflautur allan sólarhringinn.. og hér er hægt að "skreppa" í heimsókn..það tekur lágmark 1 og 1/2 klst í RVK.
Já, þið ættuð því að skynja ánægju mína með það að vera komin með dæturnar (og kallinn:) í rólegheitin. Ég mæli með þessu ef þið mögulega hafið kost á!!
Over & out...